Sport

„Við vorum nær því að taka sigurinn en Valur“

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristján Guðmundsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Kristján Guðmundsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var nokkuð ánægður með eitt stig gegn toppliði Vals í fyrsta leik eftir landsleikjahlé.

„Við erum ánægð með stig á Origo-vellinum. Tilfinningin eftir leik er að stig gaf rétta mynd af leiknum en ef eitthvað var fannst mér við aðeins beittari,“ sagði Kristján Guðmundsson í samtali við Vísi eftir leik.

Vegna þátttöku Íslands á EM var gerð sex vikna pása á Bestu deildinni og var Kristján ánægður með hvernig stelpurnar mættu í fyrsta leik.

„Mér fannst við koma vel inn í leikinn það var mikil orka í liðinu. Mér fannst varnarleikurinn öflugur og sóknirnar voru hættulegar. Það er enn þá framfara merki á liðinu og ég var mjög ánægður með leikinn.“

Valur hótaði sigurmarki í síðari hálfleik og taldi Kristján Val nýta sér svæði þegar Stjarnan fór ofar á völlinn.

„Við fórum framar með liðið og skildum eftir opin svæði á miðjunni sem Valur nýtti sér stundum. Við vildum opna leikinn aðeins meira en við gerðum í fyrri hálfleik en það kom ekkert mark út úr því.“

„Bæði lið fengu færi til að tryggja sér sigurinn en mér fannst við vera aðeins nær því en hefðum átt að vera aðeins svalari fyrir framan markið,“ sagði Kristján Guðmundsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×