Íslenski boltinn

Frá EM í Englandi og út í Eyjar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Atladóttir og Auður Scheving á æfingu með íslenska landsliðinu á EM í England.
Sif Atladóttir og Auður Scheving á æfingu með íslenska landsliðinu á EM í England. Vísir/Vilhelm

Einn af landsliðsmarkvörðum Íslands á Evrópumótinu er komin í nýtt félag fyrir lokasprettinn í Bestu deildinni því hún mun klára tímabilið í Vestmannaeyjum.

Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving kom inn í íslenska EM-hópinn þegar Cecilía Rán Rúnarsdóttir puttabrotnaði rétt fyrir fyrsta leik.

Auður var í láni hjá Aftureldingu fyrri hluta tímabilsins en hafði skipt aftur í móðurfélagið sitt Val.

Það er ekkert pláss í byrjunarliði Vals því þar spilar byrjunarliðsmarkvörður íslenska landsliðsins og einn besti leikmaður liðsins á EM, Sandra Sigurðardóttir.

Nú lána Valsmenn Auði því til ÍBV þar sem hún hafði leikið undanfarin tvö tímabil við góðan orðstír.

Auður verður ekki tvítug fyrr en í næsta mánuði en hún varð næstyngsti leikmaður íslenska landsliðsins hópsins eftir að Cecilía Rán datt út.

Auður er aftur að leysa af meiddan leikmann því Guðný Geirsdóttir lék fyrstu átta deildarleiki ÍBV á tímabilinu áður en hún meiddist í bikarleik gegn Stjörnunni. Hún er enn frá vegna þeirra meiðsla og kemur Auður því sterk inn.

ÍBV er í hörkubaráttu í efri hluta Bestu deildarinnar sem Eyjaliðið er í fjórða sæti með sautján stig eftir tíu leiku.

„Mikil ánægja er með komu Auðar til ÍBV og býst knattspyrnudeildin við miklu af Auði sem hefur verið ein af betri markvörðum Íslands síðustu ár,“ segir í frétt á heimasíðu ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×