Klinkið

Ó­ljóst hvernig SÍ vill taka á um­svifum líf­eyris­sjóða á lána­markaði

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gunnar Jakobsson, Unnur Gunnarsdóttir og Ásgeir Jónsson. 
Gunnar Jakobsson, Unnur Gunnarsdóttir og Ásgeir Jónsson. 

Æðstu stjórnendur Seðlabanka Íslands hafa síðustu misserum kallað eftir því að regluverkinu í kringum lífeyrissjóði verði breytt í samræmi við aukin umsvif sjóðanna á húsnæðislánamarkaði og hefur jafnvel komið fram í máli seðlabankastjóra að honum hugnist ekki þátttaka lífeyrissjóða á markaðinum. En þrátt fyrir að stjórnendur bankans hafi haft uppi stór orð um auknar kröfur gagnvart lífeyrissjóðum er ekki ljóst hvernig þeir vilja taka á lánastarfsemi sjóðanna nú þegar hlutdeild þeirra á markaðinum fer aftur vaxandi.

Á fundi fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands í desember 2020 voru nefndarmenn afdráttarlausir í svörum þegar spurt var um lífeyrissjóði og áhrif þeirra á fjármálastöðugleika. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði að setja þyrfti lífeyrissjóðunum ramma sem væri svipaður rammanum í kringum bankakerfið.

„Við erum með þrjá kerfislega mikilvæga banka og búið er að búa til mjög þéttan ramma í kringum þá, til þess að tryggja það að það sem þeir eru að gera hafi ekki neikvæð áhrif á hagkerfið okkar. Með einhverjum hætti þarf að setja svipaðan ramma í kringum lífeyrissjóðina,“ sagði Ásgeir og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, tók í sama streng:

„Það er ekki heppilegt að lífeyrissjóðir breytist í lánastofnanir án þess þá að þeir séu með þá umgjörð innanhúss varðandi áhættustýringu, þekkingu á því að vinna úr lánum þegar bjátar á eða herðir að o.s.frv. Þannig að það er heilmikil umgjörð sem hefur verið byggð upp í bankastarfsemi, bæði á Íslandi sem og annarsstaðar, sérstaklega eftir 2008. Það væri óheppilegt ef lífeyrissjóðir færu frekar inn í bankastarfsemi án þess að vera undir sömu kröfum og bankar.“

Þá hefur einnig komið fram í máli Unnar Gunnarsdóttur, varaseðlabanka fjármálaeftirlits, að regluverkið í kringum lífeyrissjóðina sé of einfalt.

„Segja má að regluverk fyrir banka, vátryggingastarfsemi og verðbréfamarkaðinn sé orðið of fyrirferðarmikið en ef við tökum lífeyriskerfið fyrir má hins vegar segja að regluverkið sé of einfalt, enda er löggjöfin í kringum lífeyriskerfið séríslensk. Við teljum að gera þurfi meiri kröfur til og setja strangari varúðarreglur um lífeyrissjóði,“ sagði Unnur í viðtali við Innherja í lok desember.

Frá því í mars 2016 og þar til kórónuveirufaraldurinn skall á hér á landi í lok febrúar 2020 voru lífeyrissjóðirnir mjög umsvifamiklir í veitingu nýrra húsnæðislána og með álíka hlutdeild í veitingu nýrra lána og bankarnir.

Á meðan stýrivextir Seðlabankans voru í sögulegu lágmarki dró verulega úr umsvifum lífeyrissjóða á húsnæðislánamarkaðinum. Frá því í júní 2020 og til október 2021 voru hrein ný útlán sjóðanna neikvæð í hverjum einasta mánuði en samhliða vaxtahækkunarferli Seðlabankans hafa þeir rutt sér til rúms á ný.

Samkvæmt tölum Seðlabanka frá janúar til loka maí voru lífeyrissjóðir með þriðjungshlutdeild í veitingu nýrra, óverðtryggðra íbúðalána en bankarnir voru með tvo þriðju af markaðinum.

Seðlabankastjóri sagði á opnum fundi efnahagsnefndar Alþingis í mars að honum hugnaðist ekki þátttaka lífeyrissjóða á markaðinum. „Það er engin launung á því að ég hefði helst viljað að lífeyrissjóðirnir væru ekki beinir þátttakendur á lánamarkaðinum eins og þeir eru í dag,“ sagði Ásgeir.

Rökin gegn beinni þátttöku lífeyrissjóða á lánamarkaðinum koma meðal annars fram í minnisblaði sem Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, tók saman fyrir hvítbók um fjármálakerfið árið 2018. 

„Kjarnastarfsemi lífeyrissjóða er ekki lánastarfsemi, ólíkt því sem við á um banka. Því kann að vera óhagkvæmt að mjög margir lífeyrissjóðir reki eigin útlána- og innheimtudeildir frekar en að sú starfsemi sé á höndum sérhæfðra lánastofnana. M.ö.o. það kann að vera eðlileg verkaskipting að lánastofnanir annist útlán en lífeyrissjóðir sinni annars vegar eignastýringu og hins vegar útgreiðslu lífeyris,“ sagði í minnisblaðinu.

En stjórnendur lífeyrissjóða hafa furðað sig á afstöðu seðlabankastjóra. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, skrifaði í nýlegri grein í Frjálsri verslun að fákeppni myndi taka við af samkeppni ef sjóðirnir hyrfu af markaðinum. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, sagði vonbrigði að seðlabankastjóri væri genginn til liðs við Samtök fjármálafyrirtækja í þessu máli og tæki þannig undir málflutning sem felur í sér að minnka samkeppni. 

Innherji beindi fyrirspurn til Seðlabankans um hvernig breytingar bankinn vildi sjá á regluverkinu í kringum lífeyrissjóði. Í svari bankans segir að hann hafi á síðustu árum komið þeirri skoðun sinni á framfæri við stjórnvöld að æskilegt sé orðið að gera breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þetta eigi ekki hvað síst við um þá kafla laganna sem fjalli um hlutverk stjórna, sjálfstæði þeirra og hlutverk og hæfi stjórnarmanna.

Auk þess er tímabært að mati Seðlabankans að endurskoða ýmsa aðra kafla laganna, þ.m.t. í því skyni að bæta neytendavernd á lífeyrismarkaði, og telur bankinn að líta megi til meginreglna sem gilda um viðskiptahætti og neytendavernd á öðrum mörkuðum. Þá hefur Seðlabankinn óskað eftir því við fjármála- og efnahagsráðherra að mótuð verði heildarlöggjöf um séreignarsparnað landsmanna.

Í svari Seðlabankans var ekki sérstaklega minnst á regluverk sem tekur til umsvifa lífeyrissjóða á húsnæðislánamarkaði. Bankinn vísað til ritsins „Stefnumarkandi áherslur við eftirlit á fjármálamarkaði 2022-2024“ þar sem áherslum er varða lífeyrissjóði er lýst í grófum dráttum eins í svarinu var hvergi minnst sérstaklega á húsnæðislánin.

Fjármálaeftirlit bankans telur þó, að því er kemur fram í ritinu, að áfram þurfi að „vinna að uppbyggingu áhættustýringar hjá lífeyrissjóðunum“ auk þess sem leggja þurfi áherslur á „heilbrigða áhættumenningu“ innan þeirra. Engar nánari útskýringar fylgdu með.

Sjónarmið stjórnenda bankans endurspegluðust í yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kom til landsins í byrjun maí á þessu ári. Í yfirlýsingunni var sérstaklega tekið fram að styrkja þyrfti heimildir Seðlabankans til að hafa eftirlit með stjórnarháttum og áhættustýringu íslenskra lífeyrissjóða.

„Í ljósi þess að kerfislegt mikilvægi lífeyrissjóða fer vaxandi og vegna náinna tengsla þeirra við aðrar fjármálastofnanir ætti að efla heimildir Seðlabankans til að hafa eftirlit með stjórnarháttum þeirra og áhættustýringu.“


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×