Tónlist

Horfist í augu við ótta sinn á kóngulóm með nýju tónlistarverkefni

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Herdís Stefánsdóttir gengur undir listamannsnafninu Kónguló í nýju tónlistarverkefni.
Herdís Stefánsdóttir gengur undir listamannsnafninu Kónguló í nýju tónlistarverkefni. Anna Maggý

Tónlistarkonan Herdís Stefánsdóttir var að senda frá sér lagið Be Human undir listamannsnafninu Kónguló. Herdís hefur komið víða að í tónlistarheiminum bæði hérlendis sem og erlendis en þetta er fyrsta útgáfa hennar sem sóló listamaður. Blaðamaður tók púlsinn á Herdísi og fékk að heyra nánar frá þessu nýja tónlistarverkefni.

Herdís er einna þekktust fyrir tónsmíðar sínar fyrir kvikmyndir og sjónvarp, auk þess að hafa skipað rafdúettinn East of My Youth. Lagið Be Human er, sem áður segir, hennar fyrsta útgáfa sem sóló listamaður. Í laginu nýtur Herdís aðstoðar Sölku Vals úr Reykjavíkurdætrum sem syngur og rappar í laginu undir nafninu neonme og Baldur Hjörleifsson er co-producer. Herdís lauk nýverið við að semja tónlist fyrir seríuna The Essex Serpent sem sýnd er á streymisveitunni Apple+ og hefur hlotið frábærar viðtökur.

Hvaðan fékkstu hugmyndina að listamannsnafninu Kónguló?

Ég var rosalega hrædd við kóngulær sem barn, alveg þannig að það jaðraði við fóbíu. Ég er örlítið skárri í dag en samt enn þá alveg hrædd, sérstaklega við stórar kóngulær! Þrátt fyrir þessa hræðslu finnst mér þær ótrúlega heillandi og fallegar verur. Það er líka svo fallegur symbólismi sem fylgir kóngulóm.

Ég er búin að vinna í þessari tónlist mjög lengi og það er á einhvern hátt smá ógnvekjandi fyrir mig að stíga fram sem sóló listamaður eftir mörg ár af því að vera annað hvort í hljómsveit eða að semja fyrir kvikmyndir þar sem ég er hluti af stærri heild.

Ég held að það að nefna verkefnið Kónguló hafi að einhverju leyti verið hluti af því að horfast í augu við þennan ótta en líka smá spennandi, svona exposure þerapía að þurfa að hugsa reglulega um kóngulær!

Mér fannst svo fyndið þegar ég komst að því að Salka sem syngur og rappar í Be Human hafi átt tarantúlu könguló sem gæludýr, Margréti tarantúlu! Og svo að lokum, þetta er svo sérstakt orð í íslensku, hljómar ekki eins og neitt annað!

Hvaðan sækirðu innblástur fyrir þessu tónlistarverkefni?

Ég sæki innblástur bara úr lífinu, alls konar tónlist og list, líka bara daglegu lífi og fólkinu í kringum mig.

Hefur þetta lag verið lengi í vinnslu?

Grunnurinn að Be Human kom til mín í Berlín fyrir einhverjum árum síðan. Ég samdi hljómaganginn og textann í viðlaginu. Ég samdi lagið um eftirsjá og að gangast við hlutum í sjálfum manni sem maður vissi ekki að væru þarna. Lagið fór svo bara ofan í skúffu og ég vann ekkert í því í svolítinn tíma. Svo þegar ég bjó í LA kom Baldur Hjörleifsson vinur minn og pródúsent í heimsókn og við unnum í laginu í viku, við að skapa því hljóðheim við hæfi. Á þeim tímapunkti var lagið miklu meira instrumental. Aftur fór lagið ofan í skúffu og ég fór að vinna í öðrum verkefnum. 

Nokkrum mánuðum síðar sá ég hljómsveitina Cyber spila í Reykjavík. Ég þekkti Sölku ekkert þá en ég gjörsamlega féll fyrir henni sem listamanni og fann einhverja sterka samsvörun með henni . Ég ákvað að senda henni lagið og athuga hvort hún myndi vilja syngja á laginu.

Ég hafði aldrei gert neitt svona áður, að hafa samband við einhvern sem ég þekki ekki til að vinna saman að tónlist.

Salka kom með versið og rappið og algjörlega sína eigin túlkun á laginu og það small allt saman!

Salka Vals, neonme, og Herdís Stefáns, Kónguló. Anna Maggý

Hafið þið Salka og Baldur sameinað krafta ykkar áður í tónlistinni?

Be Human var fyrsta samstarfið okkar en við erum núna með nýtt efni í vinnslu!

Hvað er á döfinni?

Ég er að vinna í plötunni minni sem ég vonast til að geta gefið út á næsta ári! En svo er ég að byrja að semja tónlist fyrir nýja bandaríska horror/thriller bíómynd, mitt stærsta verkefni til þessa!


Tengdar fréttir

Þessi hlutu Ís­lensku tón­listar­verð­launin

Hljómsveitin FLOTT og Mono Town, rapparinn Birnir og tónlistarkonurnar Bríet og Anna Gréta Sigurðardóttir hlutu öll tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaunin sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Hörpu fyrr í kvöld. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.