Umræðan

Ofgreiðsla skatta við slit félaga og réttur til endurgreiðslu

Bjarni Þór Bjarnason skrifar

Í mars síðastliðinn var kveðinn upp úrskurður af yfirskattanefnd (úrskurður nr. 42/2022) þar sem nefndin snéri við bindandi áliti ríkisskattstjóra um skattalega meðferð við slit einkahlutafélags. Tilefni úrskurðarins var það að skattaðili hafði farið þess á leit við ríkisskattstjóra að hann gæfi bindandi álit sitt á því hvort sú aðgerð að slíta félagi og úthluta eignum félags til hluthafa hefði í för með sér skattskyldu fyrir félagið sem slitið var.

Eins og fram kom í áliti ríkisskattstjóra hefur framkvæmd embættisins verið sú um árabil að úthlutun eigna við slit skuli fara fram á markaðsvirði til hluthafa og úthlutun lögð að jöfnu við sölu þeirra verðmæta sem úthlutað er. Þetta leiðir síðan, eftir atvikum, til skattlagningar söluhagnaðar hjá lögaðilanum sem slitið er.

Ofangreint álit ríkisskattstjóra var kært til yfirskattanefndar, sem taldi að niðurstaða ríkisskattstjóra ætti sér ekki stoð í lögum. Þvert á móti hefði beinlínis verið horfið frá slíkri skattlagningaraðferð vegna félagsslita með lögum nr. 154/1998, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Því yrði ekki litið svo að úthlutun eigna við slit fæli í sér sölu í skattalegu tilliti í hendi þess félags sem slitið er.

Framkvæmd ríkisskattstjóra verið sú um árabil að úthlutun eigna við slit skuli fara fram á markaðsvirði til hluthafa og úthlutun lögð að jöfnu við sölu þeirra verðmæta sem úthlutað er.

Þá þykir rétt að geta þess að sambærilegt álitaefni var uppi í úrskurði yfirskattanefndar nr. 69/2019 þar sem niðurstaða nefndarinnar var á sömu leið. Í því tilviki var um að ræða skattalega meðferð á úthlutun eigna í tengslum við lækkun hlutafjár, en sömu sjónarmið eiga við í slíkum tilvikum. Um þetta sagði meðal annars svo í úrskurði nefndarinnar frá því í mars:

„Í íslenskum skattalögum hefur lengi verið kveðið á um að úthlutun verðmæta við félagsslit skuli skattlögð samkvæmt reglum um arð, sbr. nú 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Má um það efni vísa til nánari umfjöllunar í úrskurði yfirskattanefndar nr. 368/2005. Með vísan til forsendna og niðurstöðu þess úrskurðar, sbr. og úrskurð yfirskattanefndar nr. 69/2019, verður ekki fallist á með ríkisskattstjóra að úthlutun eigna kæranda við slit félagsins feli í sér sölu í skattalegu tilliti sem hafi í för með sér skattlagningu söluhagnaðar í hendi kæranda, enda var beinlínis horfið frá slíkri skattlagningaraðferð vegna félagsslita með lögum nr. 154/1998, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.“

Það er óhætt að fullyrða að með nefndum úrskurðum hafi yfirskattanefnd tekið af skarið og kveðið á um það með afdráttarlausum hætti að sú framkvæmd sem ríkisskattstjóri hefur viðhaft við slit félaga um árabil fái ekki staðist. Með hliðsjón af ofangreindu má leiða að því líkur að nokkuð sé um að félög sem slitið hefur verið á undanförnum árum hafi ofgreitt tekjuskatt við slitin á kostnað þeirra hluthafa sem ella hefðu notið þeirra fjármuna.

Ekki er loku fyrir það skotið að aðilar sem hafa orðið fyrir tjóni vegna ofgreiðslu skatta við slit geti eftir atvikum átt skaðabótakröfu á hendur ríkissjóði vegna slíks tjóns.

Í lögum nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda er kveðið á um skyldu stjórnvalda sem innheimta skatta og gjöld til þess að endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum eða eftir atvikum dráttarvöxtum. Í því sambandi ber þó að hafa í huga reglur sem gilda um fyrningu krafna, en samkvæmt framangreindum lögum fyrnast kröfur um endurgreiðslu samkvæmt þeim þegar fjögur ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað. Ekki er þó loku fyrir það skotið að aðilar sem hafa orðið fyrir tjóni vegna ofgreiðslu skatta við slit geti eftir atvikum átt skaðabótakröfu á hendur ríkissjóði vegna slíks tjóns, en um fyrningu slíkra kröfuréttinda gilda almennar fyrningarreglur samkvæmt lögum nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Að mati undirritaðs gefur sú staða sem að framan er lýst fullt tilefni til þess að þeir aðilar sem slitið hafa félögum sínum á undanförnum árum, eða eftir atvikum úthlutað eignum með lækkun hlutafjár, leggi mat á réttarstöðu sína og kanni hvort þeir hafi ef til vill ofgreitt skatta við slík slit í ljósi niðurstöðu yfirskattanefndar í ofangreindum úrskurðum.

Höfundur er lögmaður og einn eigenda hjá ADVEL lögmönnum.




Umræðan

Sjá meira


×