Umræðan

Ferða­þjónusta og sveitar­stjórnar­kosningar utan höfuð­borgar­svæðisins

Jóhannes Þór Skúlason skrifar

Nú eru fáar vikur til sveitarstjórnarkosninga. Eitt af mikilvægustu hlutverkum sveitarstjórna, ekki síst í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, er að styðja við atvinnuuppbyggingu með ráðum og dáð. Í minni sveitarfélögum er atvinna iðulega undirstaða annarra þátta, því með auknum atvinnutækifærum koma fleiri íbúar, aukin fjárfesting, aukin þjónusta við íbúana og meiri gróska í sveitarfélagið.

Því er það undarlegt hversu lítið hefur farið fyrir því hvernig framboðin hyggjast tryggja áframhaldandi þá stórfelldu uppbyggingu atvinnutækifæra og lífsgæða sem orðið hefur með aukinni ferðaþjónustu.

Ferðaþjónusta byggir upp fjölbreyttari atvinnutækifæri í sveitarfélaginu og eykur skatttekjur

Á árunum 2010-2019 skapaði ferðaþjónusta helming allra nýrra starfa sem urðu til utan höfuðborgarsvæðisins. Sveitarstjórnarfólk alls staðar á landinu veit hvers virði uppbygging nýrra starfa er fyrir þeirra svæði. Með aukinni ferðaþjónustu hafa orðið til mun fjölbreyttari atvinnutækifæri en áður á mörgum svæðum landsins, fjölmörg lítil fyrirtæki hafa sprottið upp sem sprotar og vaxið í að veita fólki atvinnu á stöðum þar sem áður var fábreyttara atvinnulíf. Með þessum fyrirtækjum hafa oft orðið til tækifæri fyrir ungt fólk að koma aftur heim með menntun og reynslu til starfa í heimabyggð sinni, en mikilvægi þess verður seint ofmetið fyrir lítil sveitarfélög.

Með ferðamönnum koma líka tekjur, bæði skatttekjur inn í sveitarsjóði og tekjur til fyrirtækja og launþega í viðkomandi sveitarfélagi, en árið 2019 skildu ferðamenn eftir 555 milljarða króna verðmæti í sveitarfélögum um allt land.

Á árunum 2010-2019 skapaði ferðaþjónusta helming allra nýrra starfa sem urðu til utan höfuðborgarsvæðisins. Sveitarstjórnarfólk alls staðar á landinu veit hvers virði uppbygging nýrra starfa er fyrir þeirra svæði.

Þessi verðmæti sem ferðamenn skilja eftir í sveitarfélögunum sjá til þess að fyrirtæki geta haft fólk í vinnu, þau greiða laun starfsfólksins og ýta undir frekari uppbyggingu, endurbætur á húsnæði, nýsköpun og vöruþróun og markaðssetningu á svæðinu. Þannig verða þessi verðmæti einnig að auknum útsvarstekjum sveitarfélagsins og bættur rekstur og fjárfesting fyrirtækjanna eykur virði fasteigna í bæjarfélaginu, og þar með fasteignaskatta.

Ferðaþjónusta eykur framboð á þjónustu og bætir lífsgæði íbúanna

Aukin ferðaþjónusta og komur ferðamanna auka líkur á stofnun margs konar fyrirtækja og uppbyggingu fjölbreyttari þjónustu í bæjarfélaginu sem íbúar geta nýtt sér. Sem dæmi má nefna frábæra flóru góðra veitinga- og kaffihúsa sem sprottið hafa upp um allt land í tengslum við aukna ferðaþjónustu. Bætt þjónusta og fjölbreyttari lífsgæði íbúa í sveitarfélaginu auka líkur á að nýjum íbúum fjölgi og að brottfluttum íbúum fækki. Það er vel þekkt staðreynd að fleiri veitingastaðir, kaffihús, menningarstarfsemi, upplifanir og fjölbreytt þjónustustarfsemi gera sveitarfélög að meira aðlaðandi stöðum til að festa rætur, bæði í augum fólks og fyrirtækja. Það eykur líkur á fjárfestingu fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum og að til verði störf sem ekki eru háð staðsetningu, t.d. tengd hugverka- og tækniiðnaði. Þannig styður uppbygging í ferðaþjónustu við víðtækari uppbyggingu í atvinnulífi á viðkomandi svæði.

Bætt þjónusta og fjölbreyttari lífsgæði íbúa í sveitarfélaginu auka líkur á að nýjum íbúum fjölgi og að brottfluttum íbúum fækki.

Uppbygging í ferðaþjónustu hefur líka ýtt undir fegrun bæjarfélaganna, gömul hús eru gerð upp og jafnvel endurbyggð, gamlar og einstakar bæjarmyndir verndaðar og sérkennum hvers staðar lyft. Hér má af fjölmörgum dæmum nefna bryggjuhúsin og vel heppnaða uppbyggingu á Siglufirði , franska spítalann og tengdar breytingar á Fáskrúðsfirði, regnbogastíginn á Seyðisfirði, sem ferðaþjónusta bjó ekki til en er nú orðinn með þekktari kennileitum Íslands erlendis, og nýjan miðbæ á Selfossi sem þegar hefur sannað sig sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og heimafólk.

Sveitarstjórnarfólk þarf að hafa skýra stefnu um uppbyggingu ferðaþjónustu

Það er auðvelt að þylja upp tölfræði um fjölda starfa og gjaldeyristekjur og þar eiga margar atvinnugreinar verðuga fulltrúa. En þegar kemur að auknum lífsgjæðum íbúa í sveitarfélögunum sjálfum þá er það skýr staðreynd að ein atvinnugrein umfram aðrar hefur umbylt aðgengi íbúa sveitarfélaganna á landsbyggðinni að veitingahúsum, afþreyingu, menningarstarfsemi og þjónustu síðasta rúman áratug. Sú atvinnugrein er ferðaþjónusta.

Frambjóðendur til sveitarstjórna ættu því að veita ferðaþjónustu sérstaka athygli í aðdraganda kosninganna og íbúar sveitarfélaganna ættu ekki síður að krefjast þess af frambjóðendum að þeir útskýri hver framtíðarsýn þeirra er gagnvart uppbyggingu þessarar grundvallaratvinnugreinar.

Þegar kemur að auknum lífsgjæðum íbúa í sveitarfélögunum sjálfum þá er það skýr staðreynd að ein atvinnugrein umfram aðrar hefur umbylt aðgengi íbúa sveitarfélaganna á landsbyggðinni að veitingahúsum, afþreyingu, menningarstarfsemi og þjónustu síðasta rúman áratug.

Ætla frambjóðendur að gera eitthvað til að hin jákvæða uppbygging atvinnutækifæra, þjónustu og lífsgæða haldi áfram? Ætla frambjóðendur að taka ákvarðanir sem munu hvetja til aukinnar fjárfestingar í ferðaþjónustu í þeirra sveitarfélagi og hvetja fólk og fyrirtæki til að setjast þar að, og hverjar þá? Eða ætla frambjóðendur að láta bara reka á reiðanum gagnvart þeirri atvinnugrein sem skapaði þriðjung allra nýrra starfa á landinu á nýliðnum áratug?

Hér hljóta öll framboð að þurfa að hafa svör. Kjördagur nálgast.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.




Umræðan

Sjá meira


×