Lífið

Keyptu fjögurra herbergja íbúð á 16 milljónir

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Lóa Pind heimsótti Þórunni Jensdóttur í lokaþættinum af Hvar er best að búa? 
Lóa Pind heimsótti Þórunni Jensdóttur í lokaþættinum af Hvar er best að búa?  Lóa Pind

Þórunn Jónsdóttir býr ásamt yngra barni sínu og kúbverskum eiginmanni í fjallaþorpinu Valsequillo á eyjunni Gran Canaria í Kanaríeyjaklasanum. Þau fluttu þangað frá Íslandi, meðal annars af því að þau áttu erfitt með að finna daggæslu fyrir dóttur sína.

Þórunn var ásamt fleirum viðmælandi hjá Lóu Pind í lokaþættinum af Hvar er best að búa? síðastliðið sunnudagskvöld. Þar ræðir Þórunn m.a. muninn á að kaupa sér fasteign á Íslandi og Kanarí. 

Þau hjónin keyptu sér 96 fermetra íbúð á tveimur hæðum, með þremur rúmgóðum svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum. Eins og Þórunn bendir á í þættinum er erfitt fyrir marga að koma sér upp útborgun til að kaupa eign á Íslandi. 

Á Kanarí gátu þau keypt íbúðina á kaupleigu. Þau borguðu 10 prósent út, önnur 10 prósent í formi leigu á tveimur árum. Að þeim tveimur árum liðnum taka þau húsnæðislán sem hún reiknar með að verði með innan við tveggja prósenta föstum óverðtryggðum vöxtum. Íbúðin kostaði 16 milljónir króna. Nánari upplýsingar eru í myndbrotinu sem hér fylgir.

Klippa: Hvar er best að búa? - Þórunn á Kanarí

Lóa Pind heimsótti Þórunni og Yasser og fleiri Íslendinga á Gran Canaria í lokaþætti þáttaraðarinnar Hvar er best að búa? Þátturinn var á dagskrá Stöðvar 2 á sunnudagskvöld. Í þessari seríu heimsækir Lóa alls konar fólk og fjölskyldur sem býr í stórborgum, sveit, helli, fjallaþorpum, bæjum og miðaldaþorpum í Portúgal, Frakklandi, Tékklandi, á Grænlandi, Gran Kanaría og Ítalíu.

Framleiðandi og leikstjóri þáttanna er Lóa Pind Aldísardóttir, myndatökumaður er Ívar Kristján Ívarsson, klippingu önnuðust Kári Jóhannsson og Sigurður Kristinn Ómarsson hjá Obbosí. Framleitt af Lóu Production fyrir Stöð 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.