Tónlist

„Mögnuð upplifun að vinna svona verkefni með bestu vinkonum sínum“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Salóme Katrín, RAKEL & ZAAR gáfu saman út splittskífuna While We Wait og halda tónleika á morgun í Fríkirkjunni.
Salóme Katrín, RAKEL & ZAAR gáfu saman út splittskífuna While We Wait og halda tónleika á morgun í Fríkirkjunni. Kaja Sigvalda/Aðsend

Tónlistarkonurnar Salóme Katrín, RAKEL & ZAAR eru í þann mund að klára tónleikaferðalag um landið og enda á tónleikum í Fríkirkjunni á morgun, föstudaginn 25. mars. Þær sameinuðu krafta sína við gerð á plötunni While We Wait sem kom út síðastliðinn febrúar en stelpurnar kynntust við nám í tónlistarskóla FÍH árið 2018 og hafa verið óaðskiljanlegar síðan, bæði sem vinkonur og sem tónlistarkonur. Blaðamaður tók púlsinn á þessum söngkonum og fékk að heyra frá tónlistar ævintýrum þeirra.

Síðastliðin ár hafa stelpurnar allar stigið fram á sjónarsviðið á ólíkum tímum, hver með sína stuttskífu. ZAAR með Lost My Sense of Humour árið 2019, Salóme Katrín fylgdi svo með Water árið 2020 og RAKEL gaf út Nothing Ever Changes árið 2021. While We Wait er sjö laga splitt-skífa og titillag plötunnar sömdu þær í sameiningu, svo lagði hver þeirra fram tvö lög.

Vináttan lagði grunn að samstarfinu

„Það einkennir plötuna á marga vegu að við nýttum okkur einvörðungu þau hljóðfæri og tónlistarfólk sem voru í okkar nærumhverfi, bæði þegar platan var samin og tekin upp,“ segja stelpurnar.

Þær segja erfitt að að tímasetja upphaf samstarfsins þar sem þær hafa verið undir áhrifum hverrar annarrar frá því þær kynntust.

„Við höfum allar spilað í sólóverkefnum hverrar annarrar síðastliðin ár og sótt mikinn innblástur frá hver annarri síðan við kynntumst. Það er því kannski ekki alveg hægt að tímasetja upphaf samstarfsins fullkomlega, kannski má bara segja að samstarfið hafi byrjað þegar við urðum vinir.“

Nýr vettvangur fyrir tónlistarflutning

„Hugmyndin að því að búa til splitt-skífu spratt út frá streymis-tónleikum sem við héldum haustið 2020 í Mengi.“

Þær segjast hafa þurft að leita leiða til að koma tónlistinni áleiðis í Covid, þar sem plön um tónleika voru að sjálfsögðu röskuð og alheimsfaraldurinn breytti öllum hugmyndum um framtíðina.

„Okkur skorti einhverskonar vettvang til þess að flytja tónlistina okkar. Þá lá í augum uppi að nýta það sem var hendi næst og skipuleggja tónleika þar sem við gætum spilað tónlist hvor annarrar. Úr varð tónleika prógramm þar sem við vorum bara þrjár að spila á þau hljóðfæri sem við höfðum aðgang að þá stundina.

Það er einhver fegurð í því, hún fleytti okkur hingað.“

Innblásturinn út um allt

Stelpurnar segja samstarfið hafa gengið ótrúlega vel, enda gott að vinna skapandi verkefni með traustum vinum.

„Það er mögnuð upplifun að fá að vinna að svona verkefni með bestu vinkonum sínum.“

Innblásturinn fyrir listsköpunina kemur svo til þeirra úr ólíkum áttum.

„Við sækjum innblástur í svo ótrúlega margt. Til að mynda hver aðra, annað tónlistarfólk, vini okkar og fjölskyldu, umhverfið okkar, náttúruna og allt sem henni fylgir. Svo er það náttúrulega alltaf ástin og lífið og það allt.“

Salóme Katrín, ZAAR og RAKEL eru bestu vinkonur sem vinna vel saman.Kaja Sigvalda/Aðsend

Þrír gamlir Subarus lögðu af stað í leiðangur

Mars mánuður hefur verið viðburðaríkur hjá þessum tónlistarkonum þar sem þær hafa ferðast víða og haldið tónleika.

„Við hófum tónleikaferðalagið mikla í dagrenningu þann þriðja mars þegar þrír gamlir Subaru bílar lögðu af stað frá Reykjavík til Akureyrar. Þann sama dag spiluðum við á Græna Hattinum þar sem var tekið ótrúlega fallega á móti okkur. Daginn eftir brunuðum við aftur til Reykjavíkur í glampandi sólskini og fórum beint upp í Efstaleiti til að spila hjá Gísla Marteini. 

Við stöldruðum stutt við í borginni því leiðin lá rakleiðis í heimabæ Salóme Katrínar, Ísafjörð. Þar spiluðum við í einu elsta húsi bæjarins sem hýsir nú Byggðasafnið á Ísafirði.“

Nú er komið að endastoppi tónleikaferðalagsins sem eru tónleikarnir í Fríkirkjunni í Reykjavík.

„Á þessum tónleikum í Fríkirkjunni munum við flytja plötuna While We Wait í heild sinni ásamt eldra efni eftir okkur allar. Með okkur verður stórglæsileg hljómsveit sem er í senn magnað tónlistarfólk og ótrúlega góðir vinir okkar,“ segja stelpurnar og vilja að lokum bæta við: 

„Góður vinur er gulli betri.“

Miðasala fer fram á tix.is.


Tengdar fréttir

„Ástríðan fyrir tónlistinni einhvern veginn alltaf fylgt mér“

Söngkonan Rakel Sigurðardóttir er tilnefnd sem Nýliði Ársins á Hlustendaverðlaununum í ár. Hún er nýbyrjuð að gefa út eigið efni en hefur í gegnum tíðina komið fram með fjölda tónlistarfólks og er meðal annars á laginu Ég var að spá sem er tilnefnt sem Lag Ársins á hátíðinni.

Sameina þrjú verkefni í einni plötu

Þrjár tónlistarkonur, Salóme Katrín, RAKEL og ZAAR, leiða saman hesta sína á nýrri splittskífu sem kemur út þann 25. febrúar næstkomandi. Ber gripurinn titilinn While We Wait og er með tveimur lögum með hverri þeirra fyrir sig ásamt einu sem þær gerðu saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.