Heimsmarkmiðin

Fjölskylduefling SOS: Nýtt verkefni í Rúanda

Heimsljós
SOS

SOS Barna­þorp­in á Ís­landi hafa hrund­ið af stað nýrri fjöl­skyldu­efl­ingu í Rú­anda. Þetta er fimmta fjöl­skyldu­efl­ing­ar­verk­efn­ið frá upp­hafi sem er á ábyrgð SOS á Ís­landi. Und­ir­bún­ing­ur hófst um síðustu ára­mót og verk­efn­ið hefst form­lega í byrj­un næsta mánaðar. Það er til fjög­urra ára eða út árið 2025.

Fjöl­skyldu­efl­ing SOS er for­varn­ar­verk­efni. Markmiðið er að forða börn­um frá að­skiln­aði við illa stadda for­eldra sína í sára­fá­tækt með því að styðja fjöl­skyld­urn­ar til fjár­hags­legs sjálf­stæð­is. SOS á Ís­landi rek­ur tvö önn­ur slík verk­efni, eitt í Eþí­óp­íu og ann­að í Mala­ví.

Verk­efn­ið í Rú­anda er í Nyamiyaga hlut­an­um í Gicumbi hér­aði og skjól­stæð­ing­arnir eru um 1.400 börn og ung­menni og for­eldr­ar þeirra í 300 fjöl­skyld­um sem búa við sára­fá­tækt. Af 21 þús­und íbú­um þessa svæð­is búa yfir 6.200 við ör­birgð. Þjóð­armorð­in árið 1994 lögðu áður veik­byggða inn­viði lands­ins í rúst og þjóðin glím­ir enn við af­leið­ing­ar þeirra.

Fjög­ur SOS barna­þorp eru í Rú­anda og í þeim eru 47 börn sem eiga SOS-for­eldra á Ís­landi. Verk­efna­svæð­ið er ná­lægt barna­þorp­inu í Byumba, höf­uð­borg Gicumbi hérðs. Þar búa tólf börn sem eiga SOS-for­eldra á Ís­landi.

Mik­ið of­beldi gegn börn­um

Yf­ir­skrift verk­efn­is­ins er Uburumbuke Iwacu eða Velsæld í fjölskyldum og samfélagi. Markmið þess er að ráð­ast á rót helstu vanda­mála sem ógna vel­ferð barna á svæð­inu og má þar helst nefna háa tíðni of­beld­is gegn börn­um, van­rækslu, yf­ir­gef­in börn og sundr­ungu í fjöl­skyld­um. Vanda­mál­in sem verk­efn­ið mun ráð­ast gegn eru meðal annars ör­birgð og vannær­ing, tak­mörk­uð þekk­ing á rétt­ind­um barna, færni í já­kvæðu upp­eldi, barna­vernd, heil­brigð­is­þjón­ustu, hrein­læti, kynja­jafn­rétti, vernd gegn HIV og kyn­bund­ið of­beldi.

Fjöl­skyldu­efl­ing SOS hef­ur ver­ið í Rú­anda í fimmtán ár og nýja verkefnið byggir á þeirri reynslu og þekk­ingu sem þar hef­ur skap­ast. Verkefnið er fjármagnað af íbúða­leigu­fyr­ir­tæk­inu Heimsta­den að mestu leyti. Heimsta­den fjár­magn­ar fyrsta verk­efnis­ár­ið að fullu en 90% síð­ustu þrjú árin. Mót­fram­lag SOS er sem fyrr fjár­magn­að af styrktarað­il­um, SOS-fjölskylduvinum. Heild­ar­kostn­að­ur þess er um 715.000 evr­ur.

Verk­efn­i SOS í Eþí­óp­íu og Mala­ví eru að stærst­um hluta fjár­mögn­uð með stuðn­ingi ut­an­rík­is­ráðu­neyt­is­ins en mót­fram­lag SOS á Ís­landi sem fyrr með fram­lög­um SOS-fjöl­skyldu­vina.


Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×