Körfubolti

„Líður eins og liðið sé á mikilli uppleið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnþór Freyr Guðmundsson í leik með Stjörnumönnum í vetur.
Arnþór Freyr Guðmundsson í leik með Stjörnumönnum í vetur. Vísir/Vilhelm

Arnþór Freyr Guðmundsson og félagar í Stjörnuliðinu mæta Keflavík í dag í undanúrslitum VÍS bikars karla í körfubolta.

„Við erum búnir að taka þátt í svona úrslitaleikjum þrjú ár í röð. Við eigum eftir að vinna Keflavík og það er þvílíkt öflugt lið. Auðvitað erum við staðráðnir að vinna þann leik og koma okkur í úrslitaleikinn,“ sagði Arnþór Freyr Guðmundsson í samtali við Ingva Þór Sæmundsson.

„Mér líður eins og liðið mitt sé á mikilli uppleið. Við byrjuðum tímabilið ekkert svakalega vel og vorum þarna í neðri hluta deildarinnar. Mér finnst stígandinn í liðinu mikill og það er mikið sjálfstraust í hópnum. Ég tel möguleika okkar vera bara mjög góða,“ sagði Arnþór.

Klippa: Viðtal við Arnþór Freyr Guðmundsson

Er Stjarnan að koma á góðu skriði inn í þennan undanúrslitaleik.

„Það er mín tilfinning. Það er komið meira flæði og meira sjálfstraust í hópinn. Mér finnst við klárlega líta mjög vel út,“ sagði Arnþór.

„Það voru einhverjar breytingar og nýir erlendir leikmenn. Svo kemur Hilmar inn. Við þurfum smá tíma til að slípa okkur saman eftir að hafa verið með svipaðan hóp síðustu ár,“ sagði Arnþór en það má sjá viðtali við hann hér fyrir ofan.

Undanúrslitaleikur Keflavíkur og Stjörnunnar fer fram í Smáranum í Kópavogi og hefst klukkan 17.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×