Körfubolti

KR er kryptonít Benna Gum: Þrettán töp í síðustu fjórtán leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson er þjálfari Njarðvíkur. Hann vill örugglega sleppa við að mæta KR í úrslitakeppninni í næsta mánuði.
Benedikt Guðmundsson er þjálfari Njarðvíkur. Hann vill örugglega sleppa við að mæta KR í úrslitakeppninni í næsta mánuði. Vísir/Hulda Margrét

Njarðvíkingar steinlágu á móti KR-ingum á heimavelli í gærkvöldi og gáfu um leið Þorlákshafnar Þórsurum frumkvæðið í baráttunni um deildarmeistaratitilinn.

Það var langt frá því að vera einhver deildarmeistarabragur á Njarðvíkurliðinu í Ljónagryfjunni í gær en KR, liðið í níunda sæti, niðurlægði bikarmeistarana á þeirra eigin heimavelli.

KR vann leikinn á endanum með 35 stiga mun. 125-90, eftir að hafa verið 22 stigum yfir í hálfleik, 62-40.

KR hefur þar með unnið báða deildarleiki sína á móti Njarðvík á tímabilinu því KR vann fyrri leikinn með sextán stiga mun í Vesturbænum fyrir áramót, 91-75.

Þjálfari Njarðvíkurliðsins er KR-ingurinn Benedikt Guðmundsson. Benedikt er nefnilega uppalinn KR-ingur og steig þar sín fyrstu skref sem þjálfari. Hann hefur gert bæði karla- og kvennalið KR að Íslandsmeisturum.

Þegar kemur að því að mæta liði KR sem þjálfari mótherjanna þá hefur vægast sagt ekki gengið vel hjá Benna.

Tapið í gærkvöldi var hans þrettánda í síðustu fjórtán leikjum á móti KR og mörg þeirra hafa verið stórir skellir.

Af þessum þrettán tapleikjum þá hafa lið Benna tapað tólf sinnum með meira en tíu stigum og sjö sinnum með tuttugu stigum eða meira.

Leikurinn í gær var í sjötta sinn á þessum níu árum þar sem lið undir stjórn Benedikts tapar með þrjátíu stigum eða meira á móti KR.

Í þessum fjórtán síðustu leikjum þá eru lið Benna 275 stig í mínus í leikjum sínum á móti KR á Íslandsmóti karla í körfubolta.

Það er því óhætt að halda því fram að KR sér kryptonít þjálfarans og KR-ingsins Benedikts Guðmundssonar.

  • Síðustu fjórtán leikir Benedikts Guðmundssonar á móti KR á Íslandsmóti:
  • 14. mars 2022 - Deild - 35 stiga tap með Njarðvík (90-125)
  • 29. október 2021 - Deild - 16 stiga tap með Njarðvík (75-91)
  • 21. mars 2017 - Úrslitakeppni - 10 stiga tap með Þór Ak. (80-90)
  • 18. mars 2017 - Úrslitakeppni - 17 stiga tap með Þór Ak. (64-81)
  • 15. mars 2017 - Úrslitakeppni - 31 stigs tap með Þór Ak. (68-99)
  • 17. febrúar 2017 - Deild - 28 stiga sigur með Þór Ak. (83-65)
  • 10. nóvember 2016 - Deild - 11 stiga tap með Þór Ak. (86-97)
  • 8. mars 2015 - Deild - 42 stiga tap með Þór Þorl. (78-120)
  • 12. desember 2014 - Deild - 35 stiga tap með Þór Þorl. (92-127)
  • 28. febrúar 2014 - Deild - 21 stigs tap með Þór Þorl. (78-99)
  • 28. nóvember 2013 - Deild - 32 stiga tap með Þór Þorl. (79-111)
  • 24. mars 2013 - Úrslitakeppni - 10 stiga tap með Þór Þorl. (83-93)
  • 21. mars 2013 - Úrslitakeppni - 38 stiga tap með Þór Þorl. (83-121)
  • 10. febrúar 2013 - Deild - 5 stiga tap með Þór Þorl. (83-88)
  • Samtals
  • 14 leikir
  • 1 sigur
  • 13 tapleikur
  • Nettó: -275



Fleiri fréttir

Sjá meira


×