Sport

Gaf Ólympíugullið sitt en óttast nú um líf sitt vegna þess

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svíinn Nils van der Poel sést hér með gullið um hálsinn á verðlaunapallinum á Vetrarólympíuleikunum í Peking.
Svíinn Nils van der Poel sést hér með gullið um hálsinn á verðlaunapallinum á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Getty/Richard Heathcote

Sænski skautahlauparinn Nils van der Poel vann tvö gull á Vetrarólympíuleikunum í Peking á dögunum en hann tók þá ákvörðun að gefa annað gullið sitt eftir að hann kom heim frá Kína.

Það var hins vegar viðtakandi gullverðlaunapeningsins sem er búinn að koma Nils í vandræði og er ástæðan fyrir því að hann óttast nú um líf sitt.

Van der Poel gaf önnur gullverðlaun sín til rithöfundarins Gui Minhai sem Kínverjar fangelsuðu fyrir að gagnrýna stjórnvöld í Kína.

Van der Poel er 25 ára gamall og vann gull í bæði fimm og tíu þúsund metra skautahlaupi. Hann setti Ólympíumet í báðum greinum og heimsmet í þeirri síðari.

„Þetta mun hafa afleiðingar fyrir öryggi mitt og frelsi. Nú kemst ég ekki hvert sem er í heiminum,“ sagði Nils van der Poel við Aftonbladet.

Nils mun líklega aldrei getað snúið aftur til Kína þar sem hann vann afrek sín á Ólympíuleikunum.

„Ég er ekki öruggari í suðaustur Asíu en Gui Minhai. Það segir mikið um öryggi þeirra sem gagnrýna Kína á þeim slóðum. Nú er ég einn af þeim,“ sagði Nils.

Angela, dóttir Gui Minhai, tók við gullverðlaununum fyrir hönd föður síns. Hún segist mjög þakklát fyrir að hann sýni föður sínum slíka samstöðu en um leið sendi hún sænskum stjórnvöldum pílu.

„Hann hefur gert meira fyrir föður minn en sænsk stjórnvöld,“ sagði Angela.

Gui Minhai var handtekinn í Tælandi árið 2015 og farið með hann til Kína. Hann var látinn laus árið 2017 en handtekinn síðan aftur ári síðar. Árið 2020 var hann dæmdur í tuttugu ára fangelsi fyrir njósnir.

Hann hefur lengi gagnrýnt stjórnvöld í Kína og hefur bæði skrifað og gefið út bækur um skoðanir sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×