Innherji

Dagur í lífi Rósu: Þéttir dagar og engir tveir eins

Ritstjórn Innherja skrifar
Rósa og sambýlismaður hennar, Hersir Aron.
Rósa og sambýlismaður hennar, Hersir Aron.

Rósa Kristinsdóttir er yfirlögfræðingur og regluvörður Akta, sjóðastýringarfélags. Hún segir dagana einkar fjölbreytta en vill helst ekki sleppa morgunbollanum með vinkonunum og auglýsir eftir fleiri stöðum sem opna eldsnemma. Hún segir lífið hafa breyst til hins betra þegar hún eignaðist baðkar.

7:20 Ég reyni að taka morgunæfingu nokkra morgna í viku en þegar ég geri það ekki vakna ég upp úr 7, yfirleitt með tveimur eða þremur snúsum – því miður. Skelli mér fram úr, fæ mér stórt vatnsglas, bursta tennur, bölva því að þurfa að setja í mig linsur og kem mér út í daginn.

8.00 Hitti góðar vinkonur í morgunbolla á kaffihúsi. Þetta er orðin ansi heilög hefð sem byrjaði fyrir nokkrum árum síðan og við höfum haldið við. Það er eitthvað við það að byrja daginn á góðum kaffibolla í skemmtilegu spjalli um allt milli himins og jarðar sem gerir daginn og vikuna betri. Við tökum öllum stöðum fagnandi sem opna 7:30-8:00.

Rósa er dugleg að hitta vinkonur sínar. Þarna eru nokkrar þeirra saman í Stokkhólmi að hlaupa maraþon.

09:00 Mæti á skrifstofuna og byrja að renna yfir tölvupósta og Asana, sem hjálpar mér að halda utan um to do listann. Það eru engir tveir dagar eins og verkefnin eru mjög fjölbreytt. Opið vinnurými hefur það í för með sér að það er alltaf mikið líf og fjör en stundum koma moment þar sem Bose Noise Cancelling heyrnatólin koma sér afskaplega vel þegar þörf er á fullri einbeitingu.

Það er eitthvað við það að byrja daginn á góðum kaffibolla í skemmtilegu spjalli um allt milli himins og jarðar sem gerir daginn og vikuna betri.

17:30 Ég bruna á æfingu á Granda101. Ég hef æft þar í nokkur ár og það klikkar aldrei að taka klukkutíma í að hugsa um eitthvað allt annað, hreyfa sig, keyra púlsinn í gang og svitna.

Rósa segir fátt jafn gott og að taka tíma úr deginum og hreyfa sig, keyra upp púlsinn og hugsa um eitthvað annað.

19:00 Kvöldmatur, sem ansi oft endar á að vera keyptur á heimleiðinni. Algengustu viðkomustaðirnir eru Hraðlestin, Mai Thai þar sem að mínu mati er hægt að fá frábært Pad Thai og besta Green Curry landsins eða Bio Borgari á Vesturgötu. Við sambýlismaðurinn höfum þó mjög gaman af því að elda, sérstaklega ef við höfum nægan tíma. Þá verða oft kjúklingaréttir, tacos, sumarrúllur eða pastaréttir fyrir valinu.

Opið vinnurými hefur það í för með sér að það er alltaf mikið líf og fjör en stundum koma moment þar sem Bose Noise Cancelling heyrnatólin koma sér afskaplega vel þegar þörf er á fullri einbeitingu.

20:00 Það er ansi oft sem ég tek tíma á kvöldin til þess að sinna „aukavinnunni“ minni, en við Aníta Rut og Kristín Hildur stöndum að baki samstarfsverkefninu Fortuna Invest. Við höldum meðal annars úti samnefndri Instagram síðu þar sem við deilum aðgengilegum, hvetjandi og áhugaverðum fróðleik um fjárfestingar. Verkefni kvöldsins er líklega að útbúa færslur, undirbúa erindi eða svara tölvupóstum og skilaboðum.

Kristín, Rósa og Aníta voru tilnefndar til viðskiptaverðlauna Innherja fyrir verkefni sitt Fortuna Invest.

21:45 Að kaupa íbúð með baðkari hefur reynst svo góð ákvörðun þar sem ég er mikil baðkona, fátt betra en að láta renna í funheitt bað og hlusta á hljóðbók. Audible alveg frábært forrit og ég hef stóraukið lestur með því að geta hlustað á bækurnar líka. Ég les allskonar bækur og finnst gaman að skipta aðeins á milli léttari skáldsagna og fræðibóka eða sjálfsævisagna. Núna síðast las ég bókina My Life in Full eftir Indra Nooyi, fyrrverandi forstjóra Pepsico sem var virkilega áhugaverð lesning.

Að kaupa íbúð með baðkari hefur reynst svo góð ákvörðun þar sem ég er mikil baðkona, fátt betra en að láta renna í funheitt bað og hlusta á hljóðbók. Audible alveg frábært forrit og ég hef stóraukið lestur með því að geta hlustað á bækurnar líka.

22:45 Ég reyni að vera komin upp í rúm fyrir klukkan 11 þó það sé oft ágætur sveigjanleiki á því. Ég hef síðan vanið mig á það að sofna yfirleitt við hlaðvarp eða hljóðbók. Ég veit ekki alveg hvort mér finnist það góður eða slæmur ávani en ég get allavega sagt að ég steinsofna og sef alla jafna ljómandi vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×