Licorice Pizza: Hvað ertu að gera okkur, Paul Thomas Anderson? Heiðar Sumarliðason skrifar 19. febrúar 2022 10:35 Cooper Hoffman og Alana Haim hlaupa mikið í Licorice Pizza. Nýjasta kvikmynd Paul Thomas Anderson, Licorice Pizza, er nú sýnd í Bíó Paradís. Hún fjallar um hinn fimmtán ára Gary, sem getur ekki látið hina 25 ára Alönu í friði. Gary er bráðþroska, á meðan Alana virðist algjörlega stöðnuð í þroska. Allt við framvindu myndarinnar er rangt, líkt og pizza með lakkrís (þó svo titillinn vísi í vínylplötur). Athugið! Þessi dómur inniheldur stóra spilla um framvindu og niðurlag myndarinnar. Licorice Pizza er það vafasöm, að ég á hreinlega erfitt með að skrifa um þessa mjög svo frambærilegu kvikmynd, án þess að gera einhverskonar athugasemd við umfjöllunarefni og efnistök. Hún fjallar um mjög svo óviðeigandi samskipti unglings undir lögaldri við fullorðna konu, án þess að nokkur einasta athugasemd sé gerð við það og við eigum að brosa yfir þessu og halda með elskendunum. Því er eilítið erfitt að skrifa dóm um hana, því er þetta meira í ætt við hugleiðingu. Hvað var ég að horfa á? Anderson er hér búinn að gera kvikmynd sem skildi mig eftir á báðum áttum. Hvernig á ég að bregðast við þessu? Og hvernig get ég fjallað um það án þess að spilla framvindunni fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina? Það er ekki hægt, því er þessi dómur fullur af spillum. Það sem er einna mest tvíeggja við Licorice Pizza er hve gaman ég hafði af áhorfinu. Hún minnti mig einna helst á eina af mínum uppáhalds myndum, Rushmore, eftir annan Anderson, Wes. Rushmore fjallaði einnig um bráðþroska fimmtán ára dreng sem eltist við eldri konu sem hann kynnist í skólanum sínum. Munurinn á Alönu og Rosemary, kennarans sem Max Fisher eltist við í Rushmore, er að Rosemary hefur þroska til að setja mörk og standa við þau. Það gerir Alana ekki, heldur gengur hún inn í unglingaheiminn og hikar varla við það. Pant ekki sjá Max og Miss Cross kyssast. Þetta eru hinsvegar tvær mjög svo ólíkar persónur, Rosemary úr Rushmore er á allan hátt fullorðin kona, á meðan Alana er eins og unglingur fastur í líkama fullorðinnar konu. Hvernig þær tækla áhuga ungmennis er mjög ólíkt og ef við skoðum það siðferði sem er almennt samþykkt í samfélagi okkar, þá er hegðun Alönu ekki í lagi. Hinsvegar virðast sumir miðaldra Hollywood-karlmenn ekki alveg átta sig á því og spyr maður sig á hvaða vegferð Anderson er með úrvinnslu sinni á efniviðnum. Er eðlilegt að myndinni ljúki á aðalpersónunum í kossaflensi? Kannski, ef myndin er ádeila, en ég sé hreinlega ekki ádeiluna. Er þetta í lagi? Það er í raun ekkert að megninu af Licorice Pizza, en þegar sett er fram jafn eldfimt efni og raun ber vitni, er best að meðhöndla það af ítrustu varfærni Þar sem þema kvikmyndar kristallast í lok hennar, er í raun ekki hægt að líta á þema Licorice Pizza sem neitt annað en að samneyti unglinga og fullorðinna sé í lagi. Þetta er eiginlega svo klikkað að maður spyr sig hvort myndin eigi ekki frekar heima á frönsku kvikmyndahátíðinni sem er nú að hefjast í Bíó Paradís (sem ég er nota bene mjög spenntur fyrir og mæli með að fólk kynni sér). Það er mjög erfitt að skrifa um þessa mynd hreinan og beinan kvikmyndadóm, sem snýr eingöngu að gæðum myndarinnar. Gæði hennar eru að flestu leyti á háu stigi, því verður ekki neitað. Hún er ótrúlega lifandi og skemmtileg, enda Paul Thomas Anderson einstakur sögumaður. Það hefur hann margsannað með frábærum kvikmyndum á borð við Boogie Nights, Magnolia, There Will Be Blood og The Master. Er Licorice Pizza samt í lagi siðferðislega? Ég get ekki svarað því með öðru en nei og verð ég að setja risastórt spurningarmerki við dómgreind Andersons, að koma fram með svona kvikmynd. Hann hefur sannarlega ekki farið varhluta af því að fólk hneykslist á henni. Það er því ekki eins og ég sé að fara ótroðnar slóðir með þessum vangaveltum. Það er búið að ræða þetta fram og aftur í Bandaríkjunum frá því myndin kom út. T.d skrifaði Candice Fredrick þessa grein í Huff Post og Reuben Baron þessa grein á Cbr.com. Baron kemur reyndar með þann punkt að það sé ekki eins og Alana sé aktívt að eltast við Gary, það sé ávallt hann sem stofni til óviðeigandi samskipta. Því sé ekki um að ræða sögu af pedófíl sem standi í einhverskonar tælingu á ungmenni. Það sé drengurinn sem taki næstum öll skrefin, það sé hann sem hundelti hana. Þetta er svo sem alveg rétt, þó má benda á að hún sannarlega mætti á stefnumótið sem hann bauð henni á í upphafi myndar, því byrjar hún ansi snemma í ferlinu að gefa honum undir fótinn. Hún hefur gaman af athyglinni og ef hún virtist ekki eiga svona auðvelt með að fá karlmenn til að eltast við sig, hefði ég giskað á að Gary væri fyrsti karlmaðurinn sem sýnir henni athygli. Það væri e.t.v. hægt að finnast þetta eitthvað skárra ef svo væri, maður fengi samúð með henni ef hún hefði upplifað sig sem utangarðs og misst af unglingsárunum. Anderson fer ekki neitt út í þá sálma og miðað við hvernig hann hefur tjáð sig um þetta umdeilda efni, þá virðist honum ekki finnast neitt athugavert við það. Jú, jú, það gerist ekkert alvarlegt á milli Alönu og Gary, en samt, það er bara eitthvað rangt við þetta. Ég er svo sem ekki ráðinn til að fella einhverja siðferðisdóma, heldur dæma gæði kvikmynda og Licorice Pizza má eiga það, hún er mjög góð kvikmynd. Hinsvegar er hún á mjög svo dökk gráu svæði siðferðislega og endir hennar...það er eitthvað ótrúlega rangt við hann. Ég efast um að Rushmore væri uppáhalds myndin mín ef hún hefði endað á því að Max og Rosemary færu í sleik. Þegar allt kemur til alls skil ég ekki hvað Paul Thomas Anderson var að hugsa þegar hann ákvað niðurlag sögunnar. Samkvæmt hans eigin orðum finnst honum þetta vera í lagi af því aðalpersónurnar sofa ekki saman í myndinni. Það er í raun merkilegt að jafn skýr náungi og Anderson missi svona svakalega af kjarna málsins. Ég hef engan áhuga á að þurfa að skrifa um Licorice Pizza á þessum nótum, því mér finnst það almennt ekki í verkahring listgagnrýnenda að vera með einhverja siðferðispredikanir. En þar sem við hér á Íslandi erum nýbúin að taka umræðu um að það sé ekki í lagi að fullorðnir eigi kynferðislegt samneyti við ungmenni (það voru víst einhverjir sem það fór framhjá), sama hvort ungmennið sé karl- eða kvenkyns. Þá æpir þetta á mig og því ekki hægt að leiða hjá sér. Niðurstaða: Hvað var ég eiginlega að horfa á? Hvað ertu að gera okkur, Paul Thomas Anderson? Licorice Pizza er frábær, þar til hún breytist úr Rushmore yfir í að vera einskonar öfug Lolita, þá hættir þetta að vera sniðugt. Stjörnubíó Bíó og sjónvarp Mest lesið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Athugið! Þessi dómur inniheldur stóra spilla um framvindu og niðurlag myndarinnar. Licorice Pizza er það vafasöm, að ég á hreinlega erfitt með að skrifa um þessa mjög svo frambærilegu kvikmynd, án þess að gera einhverskonar athugasemd við umfjöllunarefni og efnistök. Hún fjallar um mjög svo óviðeigandi samskipti unglings undir lögaldri við fullorðna konu, án þess að nokkur einasta athugasemd sé gerð við það og við eigum að brosa yfir þessu og halda með elskendunum. Því er eilítið erfitt að skrifa dóm um hana, því er þetta meira í ætt við hugleiðingu. Hvað var ég að horfa á? Anderson er hér búinn að gera kvikmynd sem skildi mig eftir á báðum áttum. Hvernig á ég að bregðast við þessu? Og hvernig get ég fjallað um það án þess að spilla framvindunni fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina? Það er ekki hægt, því er þessi dómur fullur af spillum. Það sem er einna mest tvíeggja við Licorice Pizza er hve gaman ég hafði af áhorfinu. Hún minnti mig einna helst á eina af mínum uppáhalds myndum, Rushmore, eftir annan Anderson, Wes. Rushmore fjallaði einnig um bráðþroska fimmtán ára dreng sem eltist við eldri konu sem hann kynnist í skólanum sínum. Munurinn á Alönu og Rosemary, kennarans sem Max Fisher eltist við í Rushmore, er að Rosemary hefur þroska til að setja mörk og standa við þau. Það gerir Alana ekki, heldur gengur hún inn í unglingaheiminn og hikar varla við það. Pant ekki sjá Max og Miss Cross kyssast. Þetta eru hinsvegar tvær mjög svo ólíkar persónur, Rosemary úr Rushmore er á allan hátt fullorðin kona, á meðan Alana er eins og unglingur fastur í líkama fullorðinnar konu. Hvernig þær tækla áhuga ungmennis er mjög ólíkt og ef við skoðum það siðferði sem er almennt samþykkt í samfélagi okkar, þá er hegðun Alönu ekki í lagi. Hinsvegar virðast sumir miðaldra Hollywood-karlmenn ekki alveg átta sig á því og spyr maður sig á hvaða vegferð Anderson er með úrvinnslu sinni á efniviðnum. Er eðlilegt að myndinni ljúki á aðalpersónunum í kossaflensi? Kannski, ef myndin er ádeila, en ég sé hreinlega ekki ádeiluna. Er þetta í lagi? Það er í raun ekkert að megninu af Licorice Pizza, en þegar sett er fram jafn eldfimt efni og raun ber vitni, er best að meðhöndla það af ítrustu varfærni Þar sem þema kvikmyndar kristallast í lok hennar, er í raun ekki hægt að líta á þema Licorice Pizza sem neitt annað en að samneyti unglinga og fullorðinna sé í lagi. Þetta er eiginlega svo klikkað að maður spyr sig hvort myndin eigi ekki frekar heima á frönsku kvikmyndahátíðinni sem er nú að hefjast í Bíó Paradís (sem ég er nota bene mjög spenntur fyrir og mæli með að fólk kynni sér). Það er mjög erfitt að skrifa um þessa mynd hreinan og beinan kvikmyndadóm, sem snýr eingöngu að gæðum myndarinnar. Gæði hennar eru að flestu leyti á háu stigi, því verður ekki neitað. Hún er ótrúlega lifandi og skemmtileg, enda Paul Thomas Anderson einstakur sögumaður. Það hefur hann margsannað með frábærum kvikmyndum á borð við Boogie Nights, Magnolia, There Will Be Blood og The Master. Er Licorice Pizza samt í lagi siðferðislega? Ég get ekki svarað því með öðru en nei og verð ég að setja risastórt spurningarmerki við dómgreind Andersons, að koma fram með svona kvikmynd. Hann hefur sannarlega ekki farið varhluta af því að fólk hneykslist á henni. Það er því ekki eins og ég sé að fara ótroðnar slóðir með þessum vangaveltum. Það er búið að ræða þetta fram og aftur í Bandaríkjunum frá því myndin kom út. T.d skrifaði Candice Fredrick þessa grein í Huff Post og Reuben Baron þessa grein á Cbr.com. Baron kemur reyndar með þann punkt að það sé ekki eins og Alana sé aktívt að eltast við Gary, það sé ávallt hann sem stofni til óviðeigandi samskipta. Því sé ekki um að ræða sögu af pedófíl sem standi í einhverskonar tælingu á ungmenni. Það sé drengurinn sem taki næstum öll skrefin, það sé hann sem hundelti hana. Þetta er svo sem alveg rétt, þó má benda á að hún sannarlega mætti á stefnumótið sem hann bauð henni á í upphafi myndar, því byrjar hún ansi snemma í ferlinu að gefa honum undir fótinn. Hún hefur gaman af athyglinni og ef hún virtist ekki eiga svona auðvelt með að fá karlmenn til að eltast við sig, hefði ég giskað á að Gary væri fyrsti karlmaðurinn sem sýnir henni athygli. Það væri e.t.v. hægt að finnast þetta eitthvað skárra ef svo væri, maður fengi samúð með henni ef hún hefði upplifað sig sem utangarðs og misst af unglingsárunum. Anderson fer ekki neitt út í þá sálma og miðað við hvernig hann hefur tjáð sig um þetta umdeilda efni, þá virðist honum ekki finnast neitt athugavert við það. Jú, jú, það gerist ekkert alvarlegt á milli Alönu og Gary, en samt, það er bara eitthvað rangt við þetta. Ég er svo sem ekki ráðinn til að fella einhverja siðferðisdóma, heldur dæma gæði kvikmynda og Licorice Pizza má eiga það, hún er mjög góð kvikmynd. Hinsvegar er hún á mjög svo dökk gráu svæði siðferðislega og endir hennar...það er eitthvað ótrúlega rangt við hann. Ég efast um að Rushmore væri uppáhalds myndin mín ef hún hefði endað á því að Max og Rosemary færu í sleik. Þegar allt kemur til alls skil ég ekki hvað Paul Thomas Anderson var að hugsa þegar hann ákvað niðurlag sögunnar. Samkvæmt hans eigin orðum finnst honum þetta vera í lagi af því aðalpersónurnar sofa ekki saman í myndinni. Það er í raun merkilegt að jafn skýr náungi og Anderson missi svona svakalega af kjarna málsins. Ég hef engan áhuga á að þurfa að skrifa um Licorice Pizza á þessum nótum, því mér finnst það almennt ekki í verkahring listgagnrýnenda að vera með einhverja siðferðispredikanir. En þar sem við hér á Íslandi erum nýbúin að taka umræðu um að það sé ekki í lagi að fullorðnir eigi kynferðislegt samneyti við ungmenni (það voru víst einhverjir sem það fór framhjá), sama hvort ungmennið sé karl- eða kvenkyns. Þá æpir þetta á mig og því ekki hægt að leiða hjá sér. Niðurstaða: Hvað var ég eiginlega að horfa á? Hvað ertu að gera okkur, Paul Thomas Anderson? Licorice Pizza er frábær, þar til hún breytist úr Rushmore yfir í að vera einskonar öfug Lolita, þá hættir þetta að vera sniðugt.
Stjörnubíó Bíó og sjónvarp Mest lesið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira