Umræðan

Að blekkja gegn betri vitund

Hörður Ægisson skrifar

Ef undan eru skilin síðustu tvö ár hafa vextir Seðlabankans aldrei verið lægri í Íslandssögunni. Það skýtur því skökku við núna þegar bankinn hefur ráðist í óumflýjanlega vaxtahækkun til að bregðast við miklum og vaxandi verðbólguþrýstingi – vextir hækkuðu í síðustu viku úr 2 prósentum í 2,75 prósent – að reynt sé af sumum að teikna upp þá mynd af stöðunni að mörg heimili standi frammi fyrir einhvers konar neyðarástandi vegna aukinnar skuldsetningar og breytts vaxtaumhverfis sem er að leita aftur í eðlilegra jafnvægi.

Ekkert í opinberum hagtölum gefur sem betur fer til kynna að sú greining standist nokkra skoðun. Staða heimilanna hefur sjaldan verið sterkari en nú. Engar vísbendingar eru um meiri vanskil þeirra og sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafa skuldir heimilanna aðeins vaxið lítillega og eru lægri á þann mælikvarða en á öllum hinum Norðurlöndunum. Kaupmáttur launa, ólíkt fyrri samdráttarskeiðum í hagsögunni, hefur sömuleiðis aukist í gegnum faraldurinn á grundvelli mikilla launahækkana og þensluhvetjandi ráðstafana ríkissjóðs í því skyni að verja fjárhag heimilanna og örva einkaneysluna.

Tímasetningin er því með ólíkindum og augljóslega til þess fallin að rýra verulega virði þess verðmæta hlutar sem til stendur að selja, með tilheyrandi tjóni fyrir skattgreiðendur.

Það tókst – og gott betur en það – en núna stöndum við frammi fyrir allt annarri áskorun sem er að draga úr þenslu í hagkerfinu til að tryggja verðstöðugleika. Sérstakar mótvægisaðgerðir ríkissjóðs á eftirspurnarhliðinni, sem væri eins og að henda sprekum á verðbólgubálið, myndu vinna í þveröfuga átt og ýta einkum undir enn frekari þenslu á fasteignamarkaði. Vandinn þar beinist ekki að þeim sem hafa keypt fasteignir með lánum á neikvæðum raunvöxtum, og hafa horft upp á eiginfjárstöðu sína batna verulega samhliða ört hækkandi húsnæðisverði, heldur því fólki sem hefur ekki komist inn á fasteignamarkaðinn vegna þess að það eru einfaldlega nánast engar eignir til sölu. Sá vandi verður ekki leystur nema með stórauknu framboði af húsnæði, en ekki eftirspurnarhvetjandi aðgerðum sem myndu aðeins gera illt verra fyrir þann sama hóp.

Að skjóta sig í fótinn

Það er í þessu umhverfi sem Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta og menningarmálaráðherra, hefur stigið fram og lýst því yfir að vegna „ofurhagnaðar“ bankanna ættu þeir að „greiða niður vexti fólks í landinu“ nú þegar stýrivextir Seðlabankans fara hækkandi. Fari þeir ekki að þeim tilmælum Lilju sé tilefni til að „endurvekja bankaskattinn,“ sagði hún í viðtali við Morgunblaðið undir lok síðustu viku. Tillögur ráðherrans, sem situr jafnframt í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, eru settar fram á sama tíma og ríkissjóður – eigandi að stórum hluta bankakerfisins – áformar á komandi vikum að halda áfram með sölu á hlutum sínum í Íslandsbanka. Tímasetningin er því með ólíkindum og augljóslega til þess fallin – jafnvel óháð því hvort hinar misráðnu hugmyndir Lilju verði að veruleika á næstunni – að rýra verulega virði þess verðmæta hlutar sem til stendur að selja, með tilheyrandi tjóni fyrir skattgreiðendur.

Dettur einhverjum í hug að þessi háu opinberu gjöld, mun meiri en aðrir evrópskir bankar þurfa að standa undir, hafi ekki áhrif á þau lánakjör sem bankarnir geta boðið heimilum og fyrirtækjum hverju sinni?

Rétt er að hafa í huga að svonefndur bankaskattur, sem leggst á skuldir fjármálafyrirtækja umfram 50 milljarða, hefur aldrei verið afnuminn heldur var hann aðeins lækkaður í upphafi faraldursins 2020. Eftir sem áður greiða íslensk fjármálafyrirtæki umtalsvert hærri bankaskatt – í fyrra skilaði hann ríkissjóði liðlega sex milljörðum – heldur en þekkist nokkurs staðar í Evrópu. Til viðbótar leggjast á þau ýmsir aðrir sértækir skattar, meðal annars á laun og hagnað, og staðreyndin er því sú að engin fyrirtæki í íslensku atvinnulífi eru skattlögð með jafn íþyngjandi hætti og bankarnir. Dettur einhverjum í hug að þessi háu opinberu gjöld, mun meiri en aðrir evrópskir bankar þurfa að standa undir, hafi ekki áhrif á þau lánakjör sem bankarnir geta boðið heimilum og fyrirtækjum hverju sinni? Þetta veit viðskiptaráðherra auðvitað en kýs að gera ekki neitt með í leit að stundarvinsældum með popúlískum málflutningi sínum – sem má ætla að sé hugsaður til heimabrúks innan Framsóknarflokksins fremur en innlegg í einhverja vitræna umræðu um efnahagsmál.

Eru íslensku bankarnir að skila „ofurhagnaði“? Samhengið hlýtur að skipta þar máli eins og í öllu öðru. Samanlagður hagnaður bankanna nam um 80 milljörðum króna í fyrra, sem kann að þykja mikið við fyrstu sýn, en síður þegar litið er til þess að eigið fé þeirra var samtals um 700 milljarðar króna í árslok 2021. Arðsemi á eigið fé bankanna nam á bilinu um 11 til tæplega 15 prósent, sem er talsvert betri afkoma en á undanförnum árum og á pari við margra aðra norræna banka, og skýrist einkum af meiri þóknanatekjum – vegna góðs gangs á fjármálamörkuðum og í íslensku atvinnulífi – og jákvæðra virðisbreytinga á útlánasöfnum sem verður tæplega endurtekið á þessu ári. Á sama tíma var lítil sem engin aukning í vaxtatekjum bankanna, sem stafa að minni hluta vegna íbúðalána en stundum mætti ætla af umræðunni, og vaxtamunur þeirra minnkaði sömuleiðis á milli ára, ólíkt því sem viðskiptaráðherra gaf til kynna með ummælum sínum.

Það er furðulegt ef viðskiptaráðherra sér hagsmunum viðskiptavina bankanna og ríkissjóðs, sem eigenda tveggja þeirra, betur borgið með því að hverfa aftur til fyrri tíma.

Fram til 2020 var ein helsta áskorun viðskiptabankanna, eins og meðal annars Fjármálaeftirlitið vakti athygli á, sífellt lakari afkoma af reglulegri starfsemi þeirra. Hagnaður áranna þar á undan hafði einkum stafað af einskiptistekjum vegna uppfærslu á virði fyrirtækjalána en þegar því tímabili lauk fór arðsemin hratt minnkandi – var litlu meiri en af áhættulausum ríkisskuldabréfum – og stóð tæpast undir þeirri arðsemiskröfu sem Bankasýslan setti þeim bönkum, Íslandsbanka og Landsbankanum, sem eru í eigu ríkissjóðs. Margt kom þar til, meðal annars stífar eiginfjárkröfur og háir sértækir skattar. Niðurstaðan var því óhagkvæmt og óskilvirkt bankakerfi, með lélegri arðsemi, sem hefur að lokum neikvæð áhrif á getu þess til að bjóða heimilum og fyrirtækjum upp á sem samkeppnishæfust kjör. Það er því afar jákvætt að reksturinn sé nú að færast í eðlilegra horf og furðulegt ef viðskiptaráðherra sér hagsmunum viðskiptavina bankanna og ríkissjóðs, sem eigenda tveggja þeirra, betur borgið með því að hverfa aftur til fyrri tíma í þeim efnum.

Skiptir samkeppnishæfni fjármálakerfisins máli?

Íslensku bankarnir starfa ekki í einhverju tómarúmi heldur ræðst afkoman – og um leið vaxtakjör þeirra – að stórum hluta af þeirri umgjörð sem stjórnvöld setja þeim. Allt regluverk og kröfur til bankanna var hert stórkostlega á árunum eftir fjármálahrunið og hefur þar verið sumpart gengið lengra en í okkar nágrannalöndum. Ávinningurinn af því er að viðnámsþróttur og fjárhagsstyrkur íslensku bankanna er afar mikill og eiginfjárhlutföll þeirra ein þau hæstu í allri Evrópu. Hin hliðin á teningnum er að þeim er gert að binda mun meira raunverulegt eigið fé en aðrir bankar, meðal annars á hinum Norðurlöndunum, sem hefur óhjákvæmilega þýtt að vaxtamunur þeirra hefur haldist meiri en ella. Reikningurinn endar með öðrum orðum að lokum hjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum.

Íslensku bankarnir starfa ekki í einhverju tómarúmi heldur ræðst afkoman – og um leið vaxtakjör þeirra – að stórum hluta af þeirri umgjörð sem stjórnvöld setja þeim.

Enginn trúir öðru en að viðskiptaráðherra sé umhugað um hvernig efla megi samkeppnishæfni Íslands á sem flestum sviðum. Þar hlýtur vel rekið og hagkvæmt fjármálakerfi að skipta lykilmáli í því skyni að bæta framleiðni íslensks atvinnulífs sem er í harðri alþjóðlegri samkeppni við erlend fyrirtæki um meðal annars bæði fjármagn og vinnuafl. Ráðherranum væri þess vegna nær að huga að því að bæta þá samkeppnisstöðu, sem gæti skilað sér í minnkandi vaxtamun bankanna, í stað þess að boða aðgerðir sem allt í þrennt leiða til verri lánakjara, rýra virði eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og vinna gegn peningastefnunni á verðbólgutímum. Þá hlýtur að vera, og það veit Lilja sjálf vel, betur heima setið en af stað farið.

Höfundur er ritstjóri Innherja.




Umræðan

Sjá meira


×