Saga lagði Kórdrengi

Snorri Rafn Hallsson skrifar
saga kór

Með sigri í gærkvöldi gat Saga rétt úr kútnum eftir taphrinu í síðustu leikjum og blandað sér í baráttuna um fjórða sætið í deildinni, en það veitir þátttökurétt í Stórmeistaramótinu. Kórdrengir voru enn í neðsta sæti deildarinnar en hafa staðið sig betur undanfarið og með sigri gátu þeir jafnað Fylki að stigum og eygt möguleika á því að koma sér úr fallsætinu í næstu umferðum. Fyrri leikur liðanna fór fram í Nuke þar sem Saga vann 16-10, en þar fór leikur gærkvöldsins einnig fram.

Saga vann hnífalotuna og byrjaði í vörn (Counter-Terrorists) og byrjuðu Kórdrengir því í sókn. Þrátt fyrir að Saga hefði hópað sig saman á sprengjusvæðinu inni í fyrstu lotunni var leið Kórdrengja þangað greið. Fyrsta lotan féll því með þeim á bakinu á þrefaldri fellu frá Hyperactive. Kórdrengir endurtóku leikinn af krafti í næstu tveimur lotum og litu Kórdrengir því afar sannfærandi út í upphafi leiks.

Í fjórðu lotu voru bæði lið fullvopnuð og Kórdrengir komu sprengjunni fyrir. Sögu tókst aftur á móti að framkvæma fullkomið aftengingarplan og klára lotuna með fjóra vopnaða menn á lífi. Hófst þá mikil sigurganga Sögu sem vann átta lotur í röð til að koma sér í góða stöðu fyrir síðari hálfleikinn. Nýliðarnir Guddi og Skoon studdu vel við kjarnann í liði Sögu, nokkuð sem vantað hefur upp á hjá liðinu undanfarið.

Þétt vörn sögu olli ráðaleysi hjá Kórdrengjum sem voru á tíma mjög óákveðnir og seinir í aðgerðum sínum og fylgdu ekki eftir af nægilegum krafti þeim búnaði sem þeir köstuðu. Á meðan sýndi Saga stillingu og beið eftir tækifærum sem liðið nýtti einstaklega vel. Kórdrengir voru hugmyndasnauðir, bitlausir og hægir en rétt undir lok hálfleiksins klóruðu þeir örlítið í bakkann. Þrátt fyrir að ekki öll von væri úti var brekkan brött.

Staða í hálfleik: Saga 10 - 5 Kórdrengir

Í síðari hálfleik skiptu liðin um hlutverk og var hálfleikurinn öllu jafnari. Saga vann fyrstu tvær loturnar en þá sáu Kórdrengir við þeim um tíma. Með því m.a. að dreifa sókn Sögu og leita þá uppi einn af öðrum unnu Kórdrengir sex lotur af næstu sjö til að minnka muninn niður í 13-10. Hyperactive fór þar fremstur fyrir Kórdrengjum en það háir þeim enn sem áður að geta nánast aldrei átt tvo góða hálfleiki. Virðist það vera nokkuð happa glappa hvor hálfleikurinn það er og forskotið sem Saga átti inni gaf þeim nægt svigrúm til að finna lausnir og sjá við Kórdrengjum. Skoon og Guddi voru þar atkvæðamestir en ADHD kláraði leikinn fyrir Söguí 28. lotu.

Lokastaða: Saga 16 - 12 Kórdrengir

Með sigrinum fór Saga upp um eitt sæti á töflunni og fjarlægist því fallsætin þægilega. Í næstu viku mætir Saga Fylki þriðjudaginn 1. febrúar og sama kvöld mæta Kórdrengir, sem sitja enn á botni deildarinnar, Þórsurum sem eru í öðru sæti. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira