Lífið

Æfir einn í herberginu með tennisbolta til að halda sér í formi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Björgvin Páll Gústavsson ætlar að tækla Covid-19 eins og hvern annan leik.
Björgvin Páll Gústavsson ætlar að tækla Covid-19 eins og hvern annan leik. Vísir/Vilhelm

Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður er einn þeirra leikmanna sem greinst hefur með Covid. Hann missir því af næstu leikjum en hefur engar áhyggjur af strákunum á vellinum gegn Dönum í kvöld.

Ósk Gunnars á FM957 tók stöðuna á markmanninum en hann er nú einn í einangrun í herberginu sínu. 

„Ég er bara peppaður að vera einn af ykkur að horfa á landsliðið,“ segir Björgvin Páll. 

„Þetta er búið að vera stórkostlegt mót í alla staði. Þrír leikir og þrír sigrar er ekkert sem gerist á hverju ári hjá okkur. Við erum bara í góðum gír og að spila frábærlega.“

„Auðvitað eru neikvæðar fréttir þessi Covid smit hjá okkur en við erum bara það góðir í handbolta að ég treysti engum öðrum til þess að „covera“ þetta.“

Björgvin Páll slakar ekki á þó að hann hafi smitast af veirunni skæðu. Hann vonast til að komast aftur inn á völlinn áður en mótið klárast. Hann hefur ekki herbergisfélaga í augnablikinu til þess að fá aðstoð við að æfa markvörslurnar en hann hugsar í lausnum og lætur það ekki stoppa sig.

„Ég er bara ánægður að geta djöflast og æft í mínu herbergi og haldið mér við, í formi. Að geta kastað boltum og tennisboltum í vegginn til þess að geta haldið mér í markmannsformi, til þess að gera mig mögulega kláran ef liðið þarf á mér að halda.“

Hann hefur lítil einkenni og vonast til að ná að fá tvö neikvæð PCR próf á næstu fimm dögum til þess að ná að losna úr einangrun áður en mótið klárast. 

„Þangað til mun ég bara horfa í sjónvarpinu og vona að við komumst sem lengst til þess að ég hafi einhverja leiki upp á að hlaupa,“sagði Björgvin bjartsýnn um að liðið komist alla leið.

„Ég ætla bara að láta mig dreyma.“ 

Símaviðtalið má heyra í spilaranum hér fyrir neðan. 


Tengdar fréttir

Strákarnir sem þurfa að fylla í stóru skörðin

Líf, ertu að grínast? Einmitt þegar íslenska karlalandsliðið í handbolta var á uppleið og með gríðarlega mikinn meðbyr duttu fimm leikmenn út vegna veiruskrattans. En hverjir koma til með að fylla í skörð fimmmenninganna.

Slagorð ferðarinnar er „ekkert kjaftæði!“

Það er óhátt að segja að stemmningin hafi verið mjög góð í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli í morgun þegar spenntir stuðningsmenn íslenska landsliðsins nálguðust draumaferðina sína. Karlalandsliðið í handbolta leikur gegn Dönum í milliriðli EM í kvöld og 77 stuðningsmenn fóru með flugvél utan nú um klukkan ellefu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.