Frítíminn

Dagur í lífi Davíðs: Morgunhúðrútínan, fréttatímarnir og sannar glæpasögur

Ritstjórn Innherja skrifar
Davíð Þorláksson er nýr framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf.
Davíð Þorláksson er nýr framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf.

Davíð Þorláksson er framkvæmdastjóri Betri samgangna. Hann er með flókna morgunhúðrútínu, horfir á alla fréttatímana og lætur Eldum rétt ákveða hvað er í kvöldmatinn.

07.00 Ég vakna yfirleitt milli 7 og 8, það veltur á dagsformi og verkefnum dagsins og kvöldsins áður. Ég á engin börn og drekk hvorki kaffi né borða morgunmat þannig að það eina sem ég þarf að gera er að fara í sturtu, klæða mig og fara í gegnum morgunhúðrútínuna, sem er reyndar ansi flókin og krefst þess að maður sé algjörlega vaknaður.

08.00 Ef dagurinn byrjar ekki á fundi út í bæ þá er ég mættur á skrifstofuna á milli kl. 8 og 9. Verkefnin eru fjölbreytt. Okkur hjá Betri samgöngum er ætlað að hrinda í framkvæmd Samgöngusáttmálanum sem ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu árið 2019.

Hann gerir ráð fyrir 120 milljarða króna fjárfestingu í samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu á 15 ára tímabili. Þekktasta verkefnið er Borgarlínan en svo eru einnig hjólastígar, umferðarljós og stofnvegaverkefni eins og mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, tenging Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar og stokkar á Sæbraut, Miklubraut og í Garðabæ.

Davíð á skrifstofunni.

Sem hluta af fjármögununinni erum við að þróa Keldnalandið og svo eigum við að innheimta flýti- og umferðargjöld á svæðinu, ef Alþingi ákveður að leggja þau á. Vinnustaðurinn er lítill þannig að verkefnin eru fjölbreytt. Allt frá því að huga að jólakorti til samstarfaðila upp í skoða langtímaáætlun fyrir fjármögnun.

11:30 Þegar nær dregur hádegi er hungrið farið að sverfa að. Ef tími gefst til þá fæ ég mér skyr og nota hádegið til að kíkja á æfingu í Granda101. Ef ekki, þá er það yfirleitt snöggur hádegismatur á einum af þeim fjölmörgu fínu stöðum sem eru á Grandagarði 16, þar sem við erum með skrifstofu.

Aðventukaffi sem Davíð og Daniel, kærasti hans, buðu vinum upp á fyrr í desember.

16.00 Þegar aðstæður leyfa þá reyni ég að fara tímanlega af skrifstofunni milli 16 og 17. Svara þá tölvupósti og símtölum að heiman. Fer í búð og aðrar útréttingar eftir þörfum á leiðinni heim og sinni svo hefðbundnum húsverkum með hlaðvörp dagsins í eyrunum þegar heim er komið. 

Hlaðvörp fylgja mér reyndar í gegnum allan daginn þegar ég er einn og er að gera eitthvað sem þarfnast ekki allrar athyglinnar. Hef samt hvergi nærri undan að hlusta á allt það sem ég ætla mér, en þau snúa flest að fréttum, þjóðmálum, sögu eða sönnum glæpasögum.
Davíð að halda erindi á streymisfundi nýlega.

18.00 Ég hlusta yfirleitt á alla fréttatímana og Kastljós frá kl. 18 til 20 og nota þá yfirleitt tímann til að elda og borða kvöldmat í leiðinni. Ég hef aldrei stundað hugleiðslu, en ég held að það að hlusta á fréttir og elda komist kannski næst því hjá mér. Það er að minnsta kosti góð leið til að hætta að hugsa um vinnuna. 

Eldamennskan er yfirleitt ekki flókin, heldur bara það sem Eldum rétt býður upp á þann daginn. Kærastinn, Daniel Barrios Castilla verkfræðingur hjá Controlant, kemur oft í mat og við förum yfir daginn okkar og endum svo á Netflix eða Hulu.
Davíð og Daniel í Brussel á dögunum.

23.00 Reyni að fara í gegnum kvöldhúðrútínuna og fara háttinn um kl. 23 og lesa smá í Kindle fyrir svefninn. Ég hef enga þolinmæði fyrir einhverjum gáfulegum fræðibókum heldur læt yfirleitt reyfara, eða aðra góða afþreyingu, duga. Les til dæmis alltaf hina heilögu þrenningu; Ragnar, Arnald og Yrsu. Er núna að rifja upp kynni við Jeffrey Archer, sem ég las í heild sinni fyrir nokkrum árum (fyrir utan dagbækurnar sem hann skrifaði í fangelsi) og er að fara í gegnum bækurnar sem hafa komið út frá honum síðustu árin.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.






×