Umræðan

Innherjaupplýsingar á ólíklegustu stöðum og miðlun þeirra

Andri Fannar Bergþórsson skrifar

Þegar ég heyri orðin innherjaupplýsingar og innherjasvik hugsa ég oft til kvikmyndarinnar Wall Street frá árinu 1987 með Charlie Sheen og Michael Douglas sem hinn ógleymanlegi Gordon Gekko („greed is good“). Í myndinni kemst Bud Fox, sem er leikinn af Charlie Sheen, í náðina hjá viðskiptajöfrinum Gordon Gekko með því að láta hann fá innherjaupplýsingar um Bluestar Airlines sem var skráð á bandaríska hlutabréfamarkaðinn. Faðir Buds var formaður verkalýðsfélags starfsmanna flugfélagsins og nefndi í spjalli við son sinn að það ætti að sýkna flugfélagið í stóru skaðabótamáli sem hafði verið höfðað gegn félaginu. Þegar sýknudómurinn yrði gerður opinber voru allar líkur á að hlutabréfaverð flugfélagsins hækkaði töluvert. Eftir samtalið við föður sinn fer Bud með upplýsingarnar til Gekko sem kaupir ágætt magn af hlutabréfum í flugfélaginu. Þegar sýknudómurinn var loksins birtur opinberlega skaust hlutabréfaverðið upp og Gekko seldi með tölvuverðum hagnaði.

Innherjaupplýsingar og meðferð þeirra

Með einföldum hætti má segja að innherjaupplýsingar séu verðmótandi upplýsingar um skráða fjármálagerninga, t.d. eins og hlutabréf eða skuldabréf sem eru skráð í Kauphöllinni, sem hafa ekki verið gerðar opinberar. Hugtakið innherjaupplýsingar er skilgreint í lögum, nánar tiltekið í Markaðssvikareglugerð (MAR) sem tók gildi á Íslandi í september á þessu ári. Þar sem þetta er lögfræðilegt hugtak þarf að meta hverju sinni hvort upplýsingar um skráða fjármálagerninga uppfylla skilyrði laganna til að teljast innherjaupplýsingar. Meta þarf t.d. hvort upplýsingar séu nægjanlega fastmótaðar og líklegar til að hafa verðmótandi áhrif á verð hlutabréfanna þegar þær eru gerðar opinberar.

Þær upplýsingar sem Bud fékk frá föður sínum og miðlaði áfram til Gekko er gott dæmi um innherjaupplýsingar, þar sem niðurstaðan var komin í dómsmálið (fastmótaðar eða nægjanlegar upplýsingar) og augljóst var að fréttir um niðurstöðuna myndu hafa jákvæð áhrif á hlutabréfaverðið. Aðrar hefðbundnar innherjaupplýsingar hjá skráðum félögum eru t.d. óbirt fjárhagsuppgjör sem sýna fram á óvæntan hagnað eða tap, samrunaviðræður og breytingar á stjórn eða framkvæmdastjórn félags.

Breyttar reglur um takmarkanir á landamærum vegna Covid-19 eru dæmi um ráðstafanir stjórnvalda sem geta talist innherjaupplýsingar sem varða óbeint íslensku flugfélögin, Icelandair og Play, en bæði félögin eru skráð á markað á Íslandi.

En af hverju er mikilvægt að meta hvort upplýsingar teljist vera innherjaupplýsingar? Þegar upplýsingar teljast vera innherjaupplýsingar eru ýmsar takmarkanir og kvaðir á þeim sem búa yfir slíkum upplýsingum – á svokölluðum innherjum. Innherjum er bannað að notfæra sér upplýsingarnar í viðskiptum, eins og Gekko gerði, og fremja þannig innherjasvik. Auk þess er bannað láta aðra óviðkomandi fá upplýsingarnar, eins og Bud vissulega gerði, og ráðleggja á grundvelli upplýsinganna. Markmiðið með að takmarka miðlun innherjaupplýsinga og ráðlegginga á grundvelli þeirra er að minnka líkurnar á að aðilar notfærir sér upplýsingarnar á kostnað annarra sem búa ekki yfir sömu upplýsingum. Afleiðingar fyrir innherjasvik geta verið allt að sex ára fangelsisvist og allt að tveggja ára fangelsi fyrir ólögmæta miðlun innherjaupplýsinga. Miklir hagsmunir eru því í húfi.

Innherjaupplýsingar hjá öðrum en útgefanda – Covid-ráðstafanir og viðskiptafyrirmæli

Þegar um er að ræða hefðbundnar innherjaupplýsingar, eins og óbirt uppgjör hjá skráðu félagi, er auðveldara að átta sig á því hvort maður búi yfir innherjaupplýsingum eða ekki. Félögin eða útgefendur skráða fjármálagerninga þurfa líka að útbúa lista yfir alla sem aðila sem búa yfir innherjaupplýsingum hjá sér (innherjalista) og upplýsa innherjana um ábyrgð þeirra og skyldur sem innherja. Innherjum er því gerð grein fyrir þeim viðurlögum sem gilda um innherjasvik og ólögmæta miðlun innherjaupplýsinga.

Málin flækjast aðeins þegar innherjaupplýsingar myndast ekki hjá skráðu félögunum sjálfum. Innherjaupplýsingar geta myndast hjá félögunum sjálfum (útgefendunum), t.d. þegar óbirt uppgjör sýnir fram á óvæntan hagnað eða tap, en þær geta einnig myndast annars staðar en samt sem áður varðað félagið óbeint. Þetta geta verið fyrirhugaðar lagabreytingar eða ákvarðanir stjórnvalda sem hafa áhrif á starfsemi félags og geta þannig haft áhrif á hlutabréfaverð félagsins þegar þær verða gerðar opinberar. Breyttar reglur um takmarkanir á landamærum vegna Covid-19 eru dæmi um ráðstafanir stjórnvalda sem geta talist innherjaupplýsingar sem varða óbeint íslensku flugfélögin, Icelandair og Play, en bæði félögin eru skráð á markað á Íslandi. Ákvörðun um að herða aðgerðir á landamærunum eða aflétta takmörkunum geta haft gríðarleg áhrif á eftirspurn eftir flugi hjá þessum félögum og þar með haft áhrif á hlutabréfaverð félaganna. Slíkar upplýsingar (ef þær teljast innherjaupplýsingar) myndast ekki hjá flugfélögunum sjálfum. Því getur oft verið erfitt fyrir þá aðila sem búa yfir slíkum upplýsingum að átta sig á ábyrgð sinni og skyldum sínum sem innherjar.

Annað dæmi um óhefðbundnar innherjarupplýsingar eru viðskiptafyrirmæli í tengslum við skráða fjármálagerninga, eins og t.d. hlutabréf Íslandsbanka. Ef stór hluthafi í bankanum ákveður að selja hlut sinn og biður verðbréfamiðlarann sinn um að selja fyrir sig hlutinn geta upplýsingar um væntanlega sölu á hlutnum talist vera innherjaupplýsingar sem varða Íslandsbanka. Þeim sem búa yfir þessum upplýsingum er óheimilt að notfæra sér slíkar upplýsingar eða miðla þeim áfram til óviðkomandi aðila. Til að verðbréfamiðlarinn geti sinnt sínu starfi og fundið kaupanda að hlutnum er tekið sérstaklega fram að verðbréfamiðlarinn geti framkvæmt viðskiptin án þess að eiga hættu að gerast sekur um innherjasvik.

Lögmæt miðlun innherjaupplýsinga og markaðsþreifingar

Segja má því að innherjaupplýsingar geta leynst á ólíklegustu stöðum og því mikilvægt þeir sem starfa á fjármálamarkaðinum séu stöðugt á tánum varðandi þær upplýsingar sem þeir búa yfir vegna þeirra takmarkana sem gilda um meðferð innherjaupplýsinga. Þrátt fyrir þessar takmarkanir í lögum er ekki öll miðlun innherjaupplýsinga ólögmæt. Til að þeir sem starfa á fjármálamarkaði geti sinnt sinni vinnu getur verið nauðsynlegt að miðla innherjaupplýsingum áfram, innan eða utan fyrirtækisins.

Til að koma til móts við það hefur löggjafinn sagt að miðlun innherjaupplýsinga sé lögmæt þegar hún fer fram í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur þess sem miðlar þeim. Náin tengsl þurfa því að vera milli miðlunar upplýsinganna og framkvæmd starfs, stöðu eða skyldu. Það gæti t.d. átt við þegar starfsmaður hjá banka sem er að vinna í uppgjörsvinnu þarf að miðla innherjaupplýsingum áfram til samstarfsfélaga sinn til að geta unnið að uppgjörinu. Ef sami starfsmaður segir maka sínum frá sömu upplýsingum er augljóst að það er ekki vegna vinnu starfsmannsins við uppgjörið. Auk þess er gerð krafa um að miðlun upplýsinganna sé mjög nauðsynleg við framkvæmd starfs, stöðu eða skyldu.

Ef stór hluthafi í bankanum ákveður að selja hlut sinn og biður verðbréfamiðlarann sinn um að selja fyrir sig hlutinn geta upplýsingar um væntanlega sölu á hlutnum talist vera innherjaupplýsingar sem varða Íslandsbanka.

Í MAR er einnig að finna reglur um svokallaðar markaðsþreifingar. Með því er átt við þegar veittar eru upplýsingar til eins eða fleiri mögulegra fjárfesta til að kanna áhuga þeirra á mögulegum viðskiptum. Upplýsingar um fyrirhugaða sölu á stórum eignarhlut í skráðu félagi geta talist innherjaupplýsingar, líkt og áður hefur komið fram. Reglurnar snúa að því að veita þeim aðilum sem þurfa að miðla slíkum upplýsingum í markaðsþreifingum ákveðið verndarsvæði (e. safe harbour). Það þýðir ef fylgt er eftir öllum þeim kröfum sem þar kom fram geta aðilar verið öruggir um að brjóta ekki gegn banni við ólögmætri miðlun innherjaupplýsinga. Þótt ekki sé fylgt eftir reglum um markaðsþreifingar í MAR þýðir það ekki að aðili hafi miðlað innherjaupplýsingum með ólögmætum hætti. Í þeim tilvikum þarf að meta hvort náin tengsl séu milli miðlunarinnar og framkvæmd starfs, stöðu eða skyldu þess sem miðlar upplýsingunum og hvort miðlunin hafi verið mjög nauðsynleg. Reglur um markaðsþreifingar veita hins vegar meiri fyrirsjáanleika og öryggi fyrir þá sem geta þurft að miðla innherjaupplýsingum í markaðsþreifingum.

Höfundur er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.






×