Saga lagði arfaslaka Fylkismenn

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Saga fylkir

Fyrir leikinn átti Fylkir möguleika á því að tylla sér við hlið Sögu á stigatöflunni og hífa sig upp af botninum þar sem liðið hefur verið frá upphafi tímabilsins. Saga hefur hins vegar átt góða spretti upp á síðkastið og hefur liðið stórbætt sig í undanförnum leikjum og slípað sig saman. Liðin tókust á í Nuke kortinu og veltu þáttastjórnendur því fyrir sér hvort það gætu verið mistök hjá Fylki að hleypa leiknum í það kort enda leikmenn Sögu virkilega vel að sér í hvernig það skuli spila. 

Saga hafði betur í hnífalotunni og valdi að byrja leikinn í vörn (Counter-Terrorist) svo Fylkismenn brugðu sér í hlutverk hryðjuverkamannana sprengjuóðu. Svo var að heyra að Fylkismenn hefðu æft sig stíft alla vikuna í því korti og fóru þeir ágætlega af stað, unnu fyrstu tvær loturnar nokkuð örugglega, en fljótlega fór að halla undan fæti. Leikurinn var heilt á litið nokkuð hraður og var Saga ekki lengi að jafna og koma sér yfir. Það hentar Fylkismönnum illa sem kjósa heldur að fara hægt, en í þetta skiptið kom það í kollinn á þeim þar sem Saga gaf ekkert eftir og tók stjórnina á leiknum. ADHD fékk nægt rými til að hlaupa um völlinn með vappann og sækja allar þær fellur sem hann girntist og hafa yfirráð yfir útisvæðinu. Brnr stóð sig gríðarlega vel inni í húsi og Cris studdi ADHD úti til að stoppa í öll möguleg göt.

Staða í hálfleik: Saga 10 - 5 Fylkir

Ekki skánaði útlitið fyrir Fylkismenn í síðari hálfleik þegar þeir þurftu að verjast. Saga hélt uppteknum hætti og sótti hratt og fékk Pandaz sérstaklega að njóta sín í því að opna lotur og láta finna fyrir sér. Loturnar í síðari hálfleik urðu því ekki margar og féllu þær allar Sögu í vil.

Lokastaða: Saga 16 - 5 Fylkir

Saga hefur breytt um stefnu frá því í upphafi tímabils þar sem öll ábyrgðin var sett á Pandaz að opna og ADHD að fylgja því eftir. Það sem áhorfendur fengu að sjá í gær var lið þar sem allir leikmenn liðsins fengu rými til að athafna sig og gera það sem þeir gera best. Athygli vekur að Criis, ADHD, Pandaz og Brnr áttu allir lotur þar sem þeir náðu fjórum fellum og dreifðust fellurnar afar jafnt á leikmenn Sögu sem virðast loks hafa fundið taktinn sem þeir þurfa til að sigla sigrum heim í viðureignum. Á móti kemur að þessi leikur var sá slappasti hjá Fylki hingað til og alls ekki upp á marga fiska.

Nú er fyrsta hring Vodafonedeildarinnar lokið og hafa öll lið leikið hvert gegn öðru. annar hringur af þremur hefst í næstu viku en þá mætir Saga XY, föstudaginn 3. desember, en þriðjudaginn 30. nómber leikur Fylkir gegn Kórdrengjum, eina liðinu sem Fylki hefur tekist að vinna á tímabilinu. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira