Íslenski boltinn

Íslenski boltinn sýndur um allan heim

Sindri Sverrisson skrifar
Íslandsmeistarar Víkings hefja titilvörn sína í beinni útsendingu um allan heim.
Íslandsmeistarar Víkings hefja titilvörn sína í beinni útsendingu um allan heim. vísir/hulda margrét

Leikir í úrvalsdeild karla í fótbolta hér á landi verða sýndir í streymisveitum um allan heim frá og með næstu leiktíð. „Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan í íslenskum fótbolta í þessum efnum,“ segir Orri Hlöðversson, formaður Íslensks toppfótbolta.

ÍTF sér um að semja um útsendingarrétt frá efstu deildum Íslands fyrir hönd íslenskra knattspyrnufélaga. Samtökin hafa nú gengið til liðs við Deildasamtök Evrópu, European Leagues, sem eru með 40 knattspyrnudeildir í 30 löndum á sínum vegum.

Í dag undirrituðu samtökin samning til þriggja ára við tvær alþjóðlegar streymisveitur sem ætla að sýna leiki úr níu úrvalsdeildum í Evrópu. Streymisveiturnar, Eleven og One Football, eru með hundruð milljóna notenda um heim allan.

Í samningnum felst að þrír leikir úr íslensku úrvalsdeildinni verði í boði í hverri umferð og að minnsta kosti einum þeirra lýst með enskum þul. Einnig verða sýndir leikir úr úrvalsdeildunum í Danmörku, Kasakstan, Lettlandi, Norður-Írlandi, Noregi, Póllandi, Slóvakíu og Sviss.

„Hér erum við að stíga stórt skref fyrir íslenska knattspyrnu, reyndar það fyrsta af mörgum sem framundan eru varðandi sjónvarps- og markaðsréttindi. Það er ákaflega mikilvægt að geta veitt aukinn aðgang að íslenskum fótbolta alls staðar í heiminum. Samningurinn gerir það að verkum að skyndilega er íslenska karladeildin komin á bekk með efstu deildum til dæmis í Danmörku, Noregi, Sviss og Póllandi. Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan í íslenskum fótbolta í þessum efnum,“ segir Orri, formaður ÍTF, í tilkynningu frá samtökunum.

Úrvalsdeildir karla og kvenna verða áfram sýndar á Stöð 2 Sport hér landi næstu fimm árin en samningar þess efnis voru undirritaðir í vor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×