Heilsa

Mælir með því að fólk leyfi öðrum að versla í matinn fyrir sig

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ásgerður Guðmunds hjá Vinnuheilsu er reglulega gestur á FM957.
Ásgerður Guðmunds hjá Vinnuheilsu er reglulega gestur á FM957. Aðsent

„Streita er viðbrögð fólks við áreiti og álagi. Það fyrsta sem við þurfum að hugsa um eru venjur, hvaða venjur eru í lífi okkar?“ segir Ásgerður Guðmundsdóttir hjá Vinnuheilsu. Hún var í viðtali hjá Ósk Gunnars á FM957 og gaf þar nokkur góð ráð varðandi streitu.

„Það getur verið ótrúleg hvíld í því að vera með venjur en þær geta líka verið slæmar. Slæmu venjurnar geta fleytt okkar á ákveðna staði en svo er utanaðkomandi áreiti sem getur valdið okkur streitu.“

Nefnir hún sem dæmi flutninga, ástvinamissi, hjónaskilnað, veikindi, samfélagsmiðla, atvinnumissi og fleira þess háttar.

„Þegar streita fer að herja á mann, þá eru þetta ákveðnar viðvörunarbjöllur sem að við þurfum að vera á varðbergi með.“

Einkennin geta verið mismunandi, vöðvabólga er aðeins eitt af þeim. 

„Við finnum það þegar við verðum kvíðin, að það verður ákveðin heilaþoka og við verðum gleymin. Hjartað, þá er það til dæmis hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról. Meltingin fer öll úr skorðum, við förum að finna fyrir harðlífi, niðurgangi, bólgum eða eitthvað slíkt. Frjósemi, það minnkar hormónastarfsemi. Svo eru það vöðvar og liðir, við förum að spennast öll upp og það er bólgumyndun og við förum að finna fyrir verkjum.“ 

Í viðtalinu nefnir Ásgerður nokkur góð ráð gegn streitu.

„Góður svefn, hvíld, hreyfing, næring. Það er ekkert að ætla sér um of, taka þessu litlu skref.“

Varðandi næringuna segir hún að fólk ætti jafnvel að íhuga að fá einhvern annan til að versla inn í matinn fyrir sig.

„Því við þurfum að fá eitthvað holt að borða. Þú kaupir alltaf það sama að borða og setur það sama í körfuna. Þegar þú ert í streitu og vilt bara draga fyrir gardínurnar, fáðu aðra líka til að aðstoða þig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.