Körfubolti

Pétur: Vonandi verða sigrarnir fleiri en síðast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pétur Ingvarsson var ánægur með strákana sína eftir sigurinn á ÍR.
Pétur Ingvarsson var ánægur með strákana sína eftir sigurinn á ÍR. vísir/daníel

Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, gat leyft sér að brosa eftir sigurinn á ÍR í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Blika í efstu deild í þrjú ár.

Leikurinn var í járnum fyrstu þrjá leikhlutana en í 4. leikhluta seig Breiðablik fram úr og landaði sigrinum.

„Okkar plan er að keyra upp hraðann. Þeir eru með frekar stórt lið og við vissum að með smá þolinmæði gætum við hlaupið á þá í fjörutíu mínútur og þeir yrðu mjög þreyttir síðustu fimm,“ sagði Pétur við Vísi eftir leik.

Blikar voru sterkari aðilinn á lokakaflanum og sigldu sigrinum örugglega í höfn. Þjálfarinn var þó aldrei í rónni.

„Það er svo stutt á milli í þessu. Ef þeir hefðu sett niður þrjú til fjögur þriggja stiga skot hefði þetta orðið leikur aftur. Maður er aldrei rólegur fyrr en þetta er búið,“ sagði Pétur sem var ánægður með frammistöðu Blika í kvöld.

„Þegar maður vinnur man maður ekkert eftir þessu slæma og heldur að allt sé gott. Svo getur maður tapað næsta leik og þá er allt í ólagi. Það er langt síðan við unnum í efstu deild og þetta var kærkomið,“ sagði Pétur sem vonast til að sigurinn gefi sínum mönnum byr undir báða vængi fyrir framhaldið.

„Vonandi verða sigrarnir fleiri en síðast. Annars eru við búnir með sigurleikinn og þetta fer bara niður á við eftir þetta,“ sagði Pétur léttur en síðast þegar Breiðablik var í efstu deild vann liðið aðeins einn leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×