Körfubolti

Matthías Orri og Darri úr KR í Körfuboltakvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Orri Sigurðarson og Darri Freyr Atlason á ferðinni með KR í fyrravetur.
Matthías Orri Sigurðarson og Darri Freyr Atlason á ferðinni með KR í fyrravetur. Samsett/Bára

Fyrsti þátturinn af Körfuboltakvöldi verður á Stöð 2 Sport í kvöld og eins og hjá öllum liðum deildarinnar þá hafa orðið mannabreytingar milli tímabila.

Kjartan Atli Kjartansson er áfram við stjórnvölinn en þrír nýir liðsmenn bætast nú við og allir hafa þeir gert góða hluti í íslenskum körfubolta.

Nýir liðsmenn Körfuboltakvölds í vetur verða þeir Matthías Orri Sigurðarson, Darri Freyr Atlason og Friðrik Pétur Ragnarsson.

Matthías Orri og Darri Freyr hættu báðir eftir síðasta tímabil hjá KR þar sem KR-liðið fór alla leið í undanúrslit og sló Val út úr átta liða úrslitunum í ógleymanlegri seríu.

Darri Freyr gerði Valskonur að Íslandsmeisturum og bikarmeisturum í fyrsta sinn í sögu kvennaliðs félagsins áður en hann tók við KR-liðinu aðeins 26 ára gamall.

Matthías Orri hefur spilað risahlutverk í deildinni undanfarin ár. Hann fór alla leið í lokaúrslitin með ÍR-ingum vorið 2019 en fór í framhaldinu heim í KR þar sem hann er uppalinn og spilaði þar undanfarin tvö tímabil.

Friðrik Ragnarsson er einn af bestu sonum Njarðvíkur í körfuboltanum og vann á sínum tíma sjö Íslandsmeistaratitla og sex bikarmeistaratitla með félaginu.

Friðrik hefur orðið Íslandsmeistari með Njarðvík sem leikmaður (1987, 1991, 1994, 1995), fyrirliði (1998), spilandi þjálfari (2001) og þjálfari (2002). Friðrik er líka annar í flestum leikjum og flestum stoðsendingum hjá Njarðvík í sögu úrvalsdeildar.

Körfuboltakvöld hefst klukkan 20.00 á Stöð 2 Sport í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×