Viðskipti innlent

MS gagn­rýnir þátt­töku for­stjóra Sam­keppnis­eftir­litsins í kostuðu blaði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Höfuðstöðvar Mjólkursamsölunnar.
Höfuðstöðvar Mjólkursamsölunnar. Vísir/Vilhelm

Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, gagnrýnir harðlega að forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, skuli hafa veitt Fréttablaðinu viðtal sem var birt í kostuðu kynningarblaði sem bar yfirskriftina „Fögnum frelsinu - Samkeppni lifi“.

Á forsíðu blaðsins var stór mynd af Ólafi M. Magnússyni, fyrrverandi eiganda Mjólku og síðar Mjólkurbúsins Kú, og meðal annars haft eftir honum að honum hefði létt þegar Hæstiréttur staðfesti ákvörðum Samkeppniseftirlitsins í vor um brot Mjólkursamsölunnar á samkeppnislögum.

Í blaðinu var einnig rætt við Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, undir fyrirsögninni „Samkeppni er drifkraftur nýsköpunar“ og Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóra Örnu í Bolungarvík, undir fyrirsögninni „Við í Örnu fögnum aukinni samkeppni“.

Þá var rætt við Pál Gunnar, Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, og Guðmund Marteinsson, framkvæmdastjóra Bónuss, sem allir fóru fögrum orðum um innreið Mjólku á mjólkurmarkaðinn.

Ein greinin í blaðinu bar fyrirsögnina „Mjólkurbændur - þrælar einokunar“.

Veki spurningar um hæfi eftirlitsins

„Blað þetta er gefið út á meðan dómsmál Mjólku á hendur Mjólkursamsölunni er itl meðferðar fyrir dómstólum. Furðu sætir að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli gefa færi á viðtali við sig í slíku kynningarblaði, sem er fjármagnað af einkaaðila þar sem farið er fram með rangfærslur gagnvart samkeppnisaðila sem Samkeppniseftirlitið á að hafa eftirlit með,“ segir í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni og Pálma Vilhjálmssyni.

„Gera verður alvarlegar athugasemdir við þessa umfjöllun og vekur hún upp áleitnar spurningar um hæfi Samkeppniseftirlitsins til að fjalla um málefni Mjólkursamsölunnar.“

Fram kemur í tilkynningunni að til standi að svara umræddum rangfærslum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×