Íslenski boltinn

Umdeild staðsetning dómara í marki KA: „Hrikalega klaufalegt af dómaranum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá teikninguna á atvikinu umdeilda í Pepsi Max Stúkunni í gær.
Hér má sjá teikninguna á atvikinu umdeilda í Pepsi Max Stúkunni í gær. Skjámynd/S2 Sport

Pepsi Max Stúkan skoðaði það betur þegar dómarinn „hjálpaði“ KA-mönnum að skora fyrsta markið í Pepsi Max deild karla í gær.

Stjörnumenn voru ósáttir með dómarann í fyrra marki KA-manna á móti Stjörnunni í gær en staðsetning dómarans var mjög óheppileg fyrir leikmenn Garðabæjarliðsins.

Pepsi Max Stúkan sýndi markið og viðtal við þjálfara Stjörnunnar þar sem hann ræddi markið sem kom KA-liðinu yfir í 1-0 í leiknum.

„Hálfsvekkjandi að varnarmaður okkar er að koma til baka og dómarinn stendur eiginlega í vegi fyrir honum og stígur fyrir hann. Hrikalega klaufalegt af dómaranum en það eru hlutir sem hafa ekki verið að detta með okkur,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn sem KA liðið vann 2-1.

Þorvaldur vildi þó ekki segja að markið hafi verið ólöglegt. „Ég er ekki að segja það en mér finnst hálfskrítið að dómarinn skuli ekki lesa stöðuna og sjá hvað er í gangi í kringum sig. Það finnst mér mjög sérkennilegt,“ sagði Þorvaldur.

Nafni hans, Þorvaldur Árnason, dæmdi leikinn á Greifavellinum á Akureyri í gær.

Klippa: Pepsi Max Stúkan: Umdeild staðsetning dómara í marki KA

Guðmundur Benediktsson skoðaði þetta atvik betur með sérfræðingum sínum í Pespi Max Stúkunni. „Við skulum bara kíkja á þetta fyrsta mark í leiknum þar sem að KA nær forystunni,“ sagði Gummi Ben.

„Þarna erum við að sjá staðsetninguna á Þorvaldi og hann er eiginlega fyrir þarna fyrst,“ sagði Guðmundur.

„Síðan bara stendur hann þarna í góðan tíma, hey hvað er að gerast,“ skaut Þorkell Máni Pétursson inn í.

„Þetta endar með því að KA skorar þarna,“ sagði Guðmundur.

„Hann hendir Einari Karli niður af því að hann er eitthvað fyrir honum,“ sagði Þorkell Máni en Guðmundur leiðrétti hann strax. Ég ætla ekki að segja að hann hendi honum niður en getum við kallað þetta óheppni,“ sagði Guðmundur.

„Einar Karl lendir í því í tvígang að Þorvaldur dómari er fyrir honum,“ sagði Guðmundur.

Hér fyrir ofan má sjá Pepsi Max Stúkuna fara yfir þetta sérstaka mark í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×