Heilsa

Lykillinn að árangri í hlaupum er að líða eins og maður hafi ekki gert neitt eftir æfingu

Birgir Olgeirsson skrifar
Maraþonhlauparinn og Íslandsmeistarinn Arnar Pétursson.
  Aðsend

Reykjavíkurmaraþonið fer fram laugardaginn 18. september og vafalaust margir sem hafa skráð sig til leiks og eru nú að velta fyrir sér hvernig sé best að æfa fyrir hlaupið.

Fréttastofa hitti Arnar Pétursson, Íslandsmeistara í maraþoni, til að fá leiðbeiningar fyrir hlaupara um það hvernig best sé að haga æfingum.

Arnar segir algengustu mistökin að gera of mikið. Fólk sé að fara of geyst af stað og hlaupa of hratt á æfingum.

„Þegar ég geri prógrömm fyrir fólk er fólk alltaf í mesta sjokkinu yfir því hversu hægt það á að fara. Það eru tvær leiðir færar, önnur er að reyna að fara eins hægt og þú getur og hægja síðan um 20 prósent. Þá mögulega ertu að fara nógu hægt,“ segir Arnar og bætir við:

„Síðan er það að prófa að anda með nefinu þegar þú ert úti að hlaupa. Þá áttu að geta andað með nefinu og verið að hlaupa. Ef þú getur ekki hlaupið þannig, þá labbaru sem er mjög fín æfing. En það sem við viljum fyrst og fremst gera er að þjálfa hjartað. Það er það sem við þjálfum mest í rólega skokkinu, hjartað. Og því hægar sem við förum því hærra hlutfall af fitu erum við að brenna. Ef við ætlum að þjálfa hjartað og brenna fitu, þá eigum við að fara nógu hægt.“

Þetta geta ekki verið annað en gleðileg tíðindi fyrir þá sem hafa miklað hlaupin fyrir sér.

„Snilldin við þetta er að þú færð allt sem þú vilt úr æfingunni, en líður samt vel á æfingunni og eftir hana. Þér á að líða eftir æfinguna eins og þú hafir ekki verið að gera neitt og þá varstu að gera hana rétt,“ segir Arnar. 

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Arnar þar sem hann fer yfir þessi mál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.