Sport

24 ára Ólympíufari fannst látin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivia Podmore var aðeins 24 ára gömul og fráfall hennar er mikil áfall fyrir þá sem þekktu hana.
Olivia Podmore var aðeins 24 ára gömul og fráfall hennar er mikil áfall fyrir þá sem þekktu hana. Getty/Dianne Manson/

Nýsjálenska hjólreiðakonan Olivia Podmore er látin en hún fannst á heimili sínu í gær. Örlög hennar eru mikið áfall fyrir alla í íþróttaheiminum á Nýja Sjálandi og víðar.

Nýsjálenska Ólympíunefndin staðfesti fréttirnar. „Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu hennar, vina og aðra á Nýja Sjálandi sem syrgja hana,“ sagði í tilkynningunni frá NZOC.

Podmore var aðeins 24 ára gömul og hafði keppt fyrir Nýja Sjáland á stórmótum þar á meðal Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Podmore þótti mjög efnileg hjólreiðakona en hún vann silfur í spretthjólreiðum liða á HM unglinga árið 2015 og komst með því inn á Ólympíuleikana ári síðar.

Podmore tókst aftur á móti ekki að tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Tókýó sem lauk um síðustu helgi.

Ekki er vitað hvernig Podmore lést. Lögreglan kom á staðinn og rannsakar málið fyrir hönd dánardómstjóri sem mun seinna gefa út dánarorsök.

Nýsjálenska Ólympíunefndin sagði frá því í tilkynningu að hún hafi séð til þess að meðlimir í Ólympíuliði Nýsjálendinga fái sálfræðiaðstoð og aðgengi að áfallahjálp vegna þessa óvænta fráfalls fyrrum liðsfélaga þeirra.

Fréttamiðlar í Nýja-Sjálandi sögðu einnig frá því að Podmore hafi nýverið greint frá því á samfélagmiðlum hvernig pressan að vera afreksíþróttakona hafði leikið hana. Pistill hennar birtist fyrir aðeins nokkrum dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×