Sport

Hætt við að keppa: Biles mun ekki verja Ólympíutitil sinn í fjölþrautinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simone Biles fylgist spennt með í liðakeppninni í gær. Með henni er Grace McCallum, liðsfélagi hennar í bandaríska liðinu.
Simone Biles fylgist spennt með í liðakeppninni í gær. Með henni er Grace McCallum, liðsfélagi hennar í bandaríska liðinu. AP/Ashley Landis

Bandaríska fimleikastjarnan Simone Biles mun ekki keppa í úrslitum fjölþrautarinnar á morgun á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Biles hefur ákveðið að draga sig úr keppni þar alveg eins og hún gerði í miðri liðakeppninni í gær. Hún gerir það til að huga að andlegri heilsu sinni.

Fimleikasamband Bandaríkjanna gaf út yfirlýsingu þar sem kemur fram að Biles hafi ákveðið að keppa ekki. Hún er ekki búin að útiloka það að keppa í úrslitum á einstökum áhöldum í næstu viku.

Hin 24 ára gamla Biles er besta fimleikakona heims og vann fjögur Ólympíugull á leikunum í Ríó fyrir fimm árum.

Væntingarnar til hennar í ár voru gríðarlega miklar og það er ljóst að þessi mikla pressa hefur orðið henni ofviða. Álagið hefur ekki minnkað við það að Biles er á fullu á samfélagsmiðlum og það minnkaði ekkert þótt hún væri mætt til Tókýó.

Biles var með besta árangurinn í undankeppninni og allir töldu að gullverðlaunin væru hennar. Nú opnast dyrnar fyrir aðrar fimleikakonur að komast út úr skugga hinnar bandarísku.

Hver þjóð má aðeins eiga tvo fulltrúa í úrslitum og því mun Jade Carey, sem var með níunda besta árangurinn í undankeppninni, taka sæti Biles í úrslitum fjölþrautarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×