Lífið

Trans­­kona prýðir for­­síðu sund­fata­tíma­rits Sports Illu­stra­ted í fyrsta sinn

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Fyrirsætan Leyna Bloom situr fyrir á forsíðu sundfatatímaritsins Sports Illustrated. Það er í fyrsta sinn sem transkona prýðir forsíðuna.
Fyrirsætan Leyna Bloom situr fyrir á forsíðu sundfatatímaritsins Sports Illustrated. Það er í fyrsta sinn sem transkona prýðir forsíðuna. Sports Illustrated

Fyrirsætan Leyna Bloom er fyrsta transkonan til þess að sitja fyrir á forsíðu sundfatatímarits Sports Illustrated. Hún tileinkar forsíðuna transkonum fortíðarinnar, nútíðarinnar og framtíðarinnar.

Bloom sem er ættuð frá Filippseyjum, er ekki aðeins fyrsta transkonan til þess að prýða forsíðuna, heldur er hún einnig fyrsta hörundsdökka transkonan til þess að birtast í tímaritinu yfir höfuð.

Transkonan Valentina Sampaio sat fyrir í tímaritinu fyrir ári síðan, en þó ekki á forsíðunni. Hún vakti athygli árið 2017 þegar hún var fyrsta transkonan til þess að vera á forsíðu Vogue Paris.

Hér má sjá þær Valentinu Sampaio, sem birtist í tímaritinu fyrir ári síðan, og Leynu Bloom, sem prýðir nú forsíðuna.Getty/Mike Marsland - Gilbert Carrasquillo

Mikil eftirvænting ríkir ár hvert, eftir sundfatatímariti Sports Illustrated sem gefið er út á sumrin. Tímaritið var fyrst gefið út fyrir 56 árum síðan og er löngu orðið eitt það virtasta í fyrirsætuheiminum. Margar af stærstu fyrirsætum heims hafa prýtt forsíðuna og fetar Bloom meðal annars í fótspor Heidi Klum og Tyru Banks.

Hin 27 ára gamla Bloom er enginn nýgræðingur í fyrirsætuheiminum. Hún sat fyrir í Vogue India árið 2017 og varð þar með fyrsta transkonan til þess að birtast í tímaritinu. Þá hefur hún einnig reynt fyrir sér sem leikkona og birtist í myndinni Port Authority sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Bloom birti hjartnæman pistil á Instragram-reikningi sínum nú á dögunum þar sem hún deildi forsíðunni með fylgjendum sínum.

„Þetta augnablik læknar mörg sár í heiminum. Við eigum þetta augnablik skilið: Við höfum beðið í milljón ár eftir því að standa uppi sem sigurvegarar og vera séðar sem fullgildar manneskjur,“ segir fyrirsætan í færslunni.

Hún tileinkar forsíðuna transkonum fortíðarinnar, nútíðarinnar og framtíðarinnar.

„Þetta sögulega augnablik er mikilvægt fyrir stelpur eins og okkur vegna þess að það gerir okkur kleift að lifa og vera séðar. Margar stelpur eins og við hafa ekki fengið tækifæri til þess að upplifa drauma sína, eða yfir höfuð lifa lengi. Ég vona að forsíðan mín valdefli þær sem berjast fyrir því að vera séðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.