Lífið

Druslugangan handan við hornið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Druslugangan verður gengin í tíunda skipti í ár.
Druslugangan verður gengin í tíunda skipti í ár. Vísir/EinarÁ

Druslugangan verður gengin í tíunda skiptið laugardaginn 24. júlí. Gengið verður af stað klukkan 14 frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll þar sem ræður og tónlistaratriði taka við.

„Druslugangan er samstöðuganga með þolendum kynferðisofbeldis og vopn okkar gegn þöggun, skömm og ofbeldi. Við sáum það í annarri bylgju #metoo í vor að gangan er mikilvæg sem aldrei fyrr og þurfum við að halda áfram að berjast gegn því kerfislæga og samfélagslega meini sem ofbeldi er,“ segir í tilkynningu vegna viðburðarins.

„Misbeiting valds er alvarlegur fylgikvilli þeirrar samfélagslegu hírarkíu sem finna má í íslensku samfélagi og eru jaðarsettir einstaklingar sérstaklega útsettir fyrir þess konar ofbeldi. Þar geta hinir ýmsu áhættuþættir haft áhrif. Við getum öll orðið fyrir ofbeldi og við getum öll beitt ofbeldi, en valdamisræmi í samfélaginu getur undirstrikað hættuna á að fólk beiti eða sé beitt ofbeldi.“

Áhættuþættir á borð við kynþáttahyggju, útlitsdýrkun, þjóðernishyggju, stofnanalegt misræmi, aldursmun, heilsuvandamál, tungumálaörðugleikar, fötlunarfordóma, fordóma gegn hinsegin fólki, stéttaskiptingu og fleira geti ýtt undir ofbeldi í samfélaginu.

„Kynferðisofbeldi og misbeiting valds á sér þannig stað í öllum kimum samfélagsins og á sér ótal birtingarmyndir og því skiptir lykilmáli að halda umræðunni á lofti og krefjast aðgerða í baráttunni gegn öllu ofbeldi.“

Skipuleggjendur hvetja alla til að taka afstöðu, skila skömminni, sýna samstöðu með þolendum ofbeldis og ganga Druslugönguna.

„Sameinumst í baráttunni gegn ofbeldi og krefjumst breytinga.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×