Körfubolti

Stólarnir halda áfram að safna liði: Hafa samið við sænskan landsliðsmann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stólarnir eru stórhuga fyrir næsta tímabil.
Stólarnir eru stórhuga fyrir næsta tímabil. vísir/hulda margrét

Tindastóll heldur áfram að safna liði fyrir næsta tímabil og hefur nú samið við reynslumikinn sænskan landsliðsmann.

Thomas Massamba hefur skrifað undir samning við Tindastól og mun leika með liðinu í Domino's deild karla í körfubolta á næsta tímabili. Þetta kemur fram á Feykir.is.

Massamba er 35 ára bakvörður og hefur leikið með sænska landsliðinu. Hann hefur farið víða á ferlinum og unnið titla í Svíþjóð, Búlgaríu, Kýpur, Kósóvó og Tékklandi. Síðast lék Massamba í Belgíu.

Stólarnir eru greinilega stórhuga en auk Massambas hafa þeir samið við Sigurð Gunnar Þorsteinsson, Sigtrygg Arnar Björnsson, Bandaríkjamanninn Javon Bess og Taiwo Badmus sem er með breskt-írskt vegabréf. 

Sigurður kom frá Hetti en Sigtryggur og Badmus frá Básquet Coruna á Spáni. Sigtryggur lék með Tindastóli tímabilið 2017-18 og varð þá bikarmeistari með liðinu.

Á síðasta tímabili endaði Tindastóll í 8. sæti Domino's deildarinnar og tapaði fyrir Keflavík, 3-0, í 1. umferð úrslitakeppninnar.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×