Lífið

Katrín var með sprungu í lærlegg en ætlar að hlaupa tíu kílómetra

Snorri Másson skrifar
211609748_10158180569327727_5333123519904549482_n

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir frá því á samfélagsmiðlum að hún hyggist hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Það verður fyrir Píeta-samtökin, sem Katrín segist hafa valið eftir langa umhugsun.

„Nú finnst einhverjum þetta vafalaust ekki neitt svakalegt markmið en fyrir mig er þetta stórmál enda hafði ég líklega ekki hlaupið svo langt í 25 ár – reyndar fundist ég vera í toppformi þegar ég náði að hlaupa fimm kílómetra með herkjum,“ skrifar Katrín á Facebook.

Katrín hefur glímt við meiðsli í fæti í um ár en skrifar að fyrir skemmstu hafi hún rekist á Þórunni Rakel Gylfadóttur þjálfara á förnum vegi, sem hafi einsett sér að hjálpa henni í gegnum meiðslin.

Forsætisráðherra átti úr vöndu að ráða þegar kom að því að velja málefni til að styrkja, skrifar hún. Píeta-samtökin urðu sem segir fyrir valinu, sem eru forvarnasamtök fyrir sjálfsvíg.

„Flest þekkjum við líklega einhvern sem hefur svipt sig lífi – og öll viljum við koma í veg fyrir sjálfsvíg og styðja eftir fremsta megni við þau sem ganga í gegnum slíkar hugsanir. Það er mikilvægt að ræða þessi mál – orsakir sjálfsvíga og áhrifin sem þau geta haft á þau sem eftir lifa. Tökum þau mál upp á borðið – það er fyrsta skrefið,“ skrifar Katrín.

Katrín hefur þegar safnað 15.000 krónum inni á vefsíðu Íslandsbanka. Síðuna má finna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×