Sport

Vann Ólympíumeistarann og tók líka af henni heimsmetið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sydney McLaughlin trúði því varla að hún hefði sett nýtt heimsmet.
Sydney McLaughlin trúði því varla að hún hefði sett nýtt heimsmet. AP/Ashley Landis

Sydney McLaughlin setti nýtt heimsmet í nótt í 400 metra grindahlaupi á bandaríska úrtökumótinu í frjálsum íþróttum fyrir Ólympíuleikana í Tókýó.

McLaughlin varð þá fyrsta konan til að hlaupa 400 metra grindahlaup á undir 52 sekúndum en hún kom í mark á 51,9 sekúndum.

Það sérstaka við heimsmet McLaughlin var að sú sem átti heimsmetið var að keppa við hana í hlaupinu.

Heimsmet Dalilah Muhammad var upp á 52,16 sekúndur en það setti hún á heimsmeistaramótinu í Dóha í Katar í október 2019.

Muhammad endaði í öðru sæti í hlaupinu og tryggði sér líka sæti í Ólympíuliði Bandaríkjamanna. Það verður því mjög áhugavert einvígi á milli þeirra á Ólympíuleikunum enda ekki mjög oft sem tveir heimsmethafar mætast á hlaupabrautinni. Anna Cockrell varð þriðja og fékk líka farseðil á Ólympíuleikana.

McLaughlin fór niður á hnén eftir að hún kom í markið og hélt fyrir munninn eins og hún trúði því ekki að hún væri búin að setja nýtt heimsmet. Muhammad var sú fyrsta sem fór til hennar og óskaði henni til hamingju.

Sydney McLaughlin var með á síðustu Ólympíuleikum í Ríó en þá aðeins sextán ára gömul. Hún rétt missti af sæti í úrslitahlaupinu. Hún varð aftur á móti í öðru sæti á eftir Daliluh Muhammad á heimsmeistaramótinu 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×