Körfubolti

Styrmir Snær: Þetta er bara körfubolti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Styrmir Snær hefur átt gott tímabil í vetur. Þessi 19 ára leikmaður skoraði 21 stig í kvöld.
Styrmir Snær hefur átt gott tímabil í vetur. Þessi 19 ára leikmaður skoraði 21 stig í kvöld. vísir/elín

Styrmir Snær Þrastarson spilaði stórt hlutverk þegar Þór frá Þorlákshöfn sagraði Stjörnuna í oddaleik undanúrslitaeinvígis liðanna. Styrmir skoraði 21 stig, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hann var eðlilega virkilega sáttur með 18 stiga sigur liðsins í kvöld.

„Þetta var bara geggjað,“ sagði Styrmir Snær að leikslokum. „Það stefndi nú ekki í þetta í fyrri hálfleik og aðallega eftir fyrsta leikhluta en við komum bara til baka og spiluðum allt öðruvísi í seinni hálfleik.“

Eins og áður segir skoraði Styrmir 21 stig í leiknum, en hann átti í basli í upphafi leiks.

„Ég var kannski að þvinga hlutina full mikið í byrjun. En svo leifði ég leiknum bara að koma til mín í seinni hálfleik og því fór sem fór.“

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Styrmir blómstrað á tímabilinu og það mætti oft halda að hann hafi spilað í deildinni til fjölda ára.

„Ég finn engan mun á því að spila núna eða í fyrra. Þetta er bara körfubolti sko. Við erum náttúrulega með geggjað lið og þeir hjálpa mér að komast í gegnum þetta.“

Eins og við var að búast var mikil stemning í Icelandic Glacial höllinni í kvöld og Styrmir var gríðarlega ánægður með stuðninginn sem liðið fékk í kvöld.

„Þetta er auðvitað bara geggjað. Sérstaklega lætin sem voru í Græna drekanum í seinni hálfleiknum. Þeir eru ekkert að fara að sofa strax, það verður partý fram á nótt.“

„En við erum að fara í úrslitin og ég vona innilega að þeir fjölmenni þangað.“

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×