Rafíþróttir

Cloud9 og DWG KIA seinustu liðin til að tryggja sig í næstu umferð MSI

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cloud9 unnu alla þrjá leiki sína í dag og fylgja því heimsmeisturunum í DWG KIA í næstu umferð MSI.
Cloud9 unnu alla þrjá leiki sína í dag og fylgja því heimsmeisturunum í DWG KIA í næstu umferð MSI. Colin Youngwolff/Riot Games/Riot Games Inc. via Getty Images

Seinasti dagur riðlakeppninnar á MSI mótinu í League of Legends sem haldið er í Laugardalshöll fór fram í dag þegar C-riðill kláraðist. Cloud9 snéri gengi sínu við og tryggði sig áfram í næstu umferð ásamt heimsmeisturunum í DWG KIA.

Fyrsti leikur dagsins var einmitt viðureign Cloud9 og DWG KIA. Í fyrri leik liðanna hafði DWG KIA unnið nokkuð þægilegan sigur, en leikur liðanna í dag var mun jafnari.

DWG KIA voru þó með yfirhöndina þegar líða fór á leikinn. Eftir um 37 mínútna leik snéru fulltrúar LCS leiknum sér í hag og unnu að lokum mikilvægan sigur í baráttunni um að fylgja DWG KIA upp úr riðlinum.

Í öðrum leik dagsins mættust DetonatioN FocusMe og Gilette Infinity. DetonatioN FocusMe fór þar með nokkuð öruggan sigur og lyfti sér upp fyrir Cloud9 í annað sæti riðilsins á innbyrgðis viðureignum, en bæði lið með tvo sigra og tvö töp.

DWG KIA og Gillette Infinity mættust svo í þriðja leik dagsins. Leikurinn leit kannski út fyrir að vera nokkuð jafn, en DWG KIA voru þó alltaf skrefinu á undan og unnu að lokum góðan sigur sem gerði út um vonir Gillette Infinity um að komast upp úr riðlinum.

Þar næst mættust Cloud9 og DetonatioN FocusMe, en Cloud9 þurfti á sigri að halda til að eiga enn von á að komast í næstu umferð.

Cloud9 byggði hægt og rólega upp gott forskot, og eftir aðeins rúmlega 24 mínútur tryggðu þeir sér sinn fjórða dreka og þar með drekasál. Aðeins sex mínútum síðar var leiknum lokið, og Cloud9 því komnir með forystuna í baráttunni um annað sæti riðilsins.

DetonatioN FocusMe þurftu því á sigri að halda gegn ríkjandi heimsmeisturum, ásamt því að treysta því að Gillette Infinity myndi vinna Cloud9 í lokaleik dagsins til að tryggja sér úrslitaleik gegn Cloud9.

Eins og í fyrri leik liðanna tók DetonatioN FocusMe frá Japan forystuna snemma gegn heimsmeisturunum í DWG KIA. Kóresku risarnir voru fljótir að vinna það forskot upp, og unnu að lokum sannfærandi sigur eftir 28 mínútna leik. DetonatioN FocusMe hafði því lokið keppni á MSI.

Seinasti leikur dagsins var svo viðureign Gillette Infinity og Cloud9. Úrslit riðilsins voru nú þegar ráðin og leikurinn því ekki sá mikilvægasti. Gillette Infinity hefði með sigri jafnað DetonatioN FocusMe í þriðja sæti, en lengra gátu þeir ekki komist.

Cloud9 tók forystuna snemma leiks, jók forskotið jafnt og þétt og vann að lokum öruggan sigur. Þeir unnu því alla þrjá leiki sína í dag og fara því fullir sjálfstrausts inn í næstu umferð.

Fyrr í dag var svo kynnt leikjaniðurröðun fyrir næstu umferð sem hefst á föstudaginn. Hægt er að fylgjast með mótinu á Stöð 2 eSport og hefst útsending klukkan 12:30 næstkomandi föstudag.

Úrslit dagsins

Cloud9 - DWG KIA

DetonatioN FocusMe - Gillette Infinity

DWG KIA - Gillette Infinity

Cloud9 - DetonatioN FocusMe

DetonatioN FocusMe - DWG KIA

Gillette Infinity - Cloud9


Tengdar fréttir

RNG taplausir og í fyrsta skipti sem ástralskt lið fer upp úr riðli á alþjóðlegu móti

Það var nóg um að vera á MSI mótinu í League of Legends sem haldið er í Laugardalshöll um helgina. Keppni í A-riðli er lokið, en Royal Never Give Up, eða RNG, kláruðu sinn riðil með átta sigrum í jafn mörgum leikjum. Með þeim upp úr riðlinum fara Pentanet.GG, en þetta er í fyrsta sinn sem ástralskt lið kemst áfram á alþjóðlegu móti.

Allt eftir bókinni á fyrsta degi MSI

Það urðu engin óvænt úrslit þegar Mid Season Invitational í League of Legends fór af stað í Laugardalshöllinni í dag. Ríkjandi heimsmeistarar opnuðu mótið með sannfærandi sigri gegn fulltrúum LCS, Cloud 9.

MSI hefst á morgun: Heimsmeistararnir ríða á vaðið

MSI, eða Mid Season Invitational mótið í League of Legends hefst á morgun, en mótið er haldið í Laugardalshöll hér í Reykjavík. Þetta er í sjötta sinn sem mótið er haldið og hingað til lands eru mætt nokkur af bestu liðum heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×