Lífið

Tom Cruise bætist í hóp gagnrýnenda og NBC segist ekki ætla að sjónvarpa verðlaununum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tom Cruise og Scarlett Johansson eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt HFPA.
Tom Cruise og Scarlett Johansson eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt HFPA. epa

Stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar NBC segjast ekki munu senda frá Golden Globe-verðlaunahátíðinni á næsta ári nema Hollywood Foreign Press Association (HFPA) ráðist í naflaskoðun og verulegar úrbætur.

Samtökin, hvers meðlimir kjósa verðlaunahafa Golden Globe-hátíðarinnar, hafa sætt mikilli gagnrýni síðustu misseri og meðal annars verið gagnrýnd fyrir grófa kvenfyrirlitningu. 

Umræðan spratt hins vegar upphaflega úr umfjöllun Los Angeles Times frá því í febrúar, þar sem greint var frá því að innan samtakanna væri ekki einn einasti svarti einstaklingur og hefði ekki verið í tuttugu ár.

Fjöldi Hollywood-stjarna hefur sagst munu sniðganga verðlaunahátíðina og í síðustu viku tilkynntu HFPA að þau hygðust auka fjölbreytnina innan sinna raða. Time's Up, samtök sem hafa barist fyrir jafnrétti innan kvikmyndaiðnaðarins, segja tillögurnar hins vegar „gluggaskraut“.

Leikkonan Scarlett Johansson er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt HFPA og lýst þeirri kvenfyrirlitingu sem hún hefur mætt af hálfu meðlima samtakanna. Þá bættist Tom Cruise í hóp gagnrýnenda í gær og sagðist hann myndu skila þeim verðlaunum sem honum hefðu verið veitt, meðal annars fyrir leik í Jerry Maguire og Born on the Fourth of July.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.