Körfubolti

Telur að Martin ætti bara að hinkra því hann muni fá starf á næstu mánuðum

Sindri Sverrisson skrifar
Israel Martin er búinn að koma sér vel fyrir á Íslandi með fjölskyldu sinni og ekkert fararsnið er á honum.
Israel Martin er búinn að koma sér vel fyrir á Íslandi með fjölskyldu sinni og ekkert fararsnið er á honum. vísir/vilhelm

Spænski körfuboltaþjálfarinn Israel Martin, sem þjálfað hefur á Íslandi síðustu sjö ár, ætti bara að bíða rólegur að mati Kjartans Atla Kjartanssonar. Hann muni fá starf hér á landi á næstu mánuðum.

Martin var rekinn frá Haukum á dögunum eftir að hafa stýrt þeim frá sumrinu 2019. Hann skildi við Hauka á botni Dominos-deildarinnar en liðið var í 6. sæti í fyrra þegar mótið var blásið af vegna kórónuveirufaraldursins. Hann gerði Tindastól að bikarmeistara árið 2018 en hætti hjá félaginu ári síðar.

„Hann þótti ekki alveg standa undir sínu þegar hann var á Króknum og gerði enga hluti með Hauka. Á hann framtíð fyrir sér í íslenskum körfubolta,“ spurði Henry Birgir Gunnarsson í hlaðvarpsþættinum Sportið í dag.

Bendir á að Borce hafi verið lengi að finna taktinn

„Já,“ sagði Kjartan Atli. „Ég hef setið þjálfaranámskeið þar sem að Israel Martin kenndi. Það er gaman að hlusta á hann. Þetta er gæi sem að landaði Bakken Bears starfinu, sem er eitt allra stærsta liðið á Norðurlöndum,“ sagði Kjartan Atli. 

Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan eða í útvarpsappi Bylgjunnar en umræðan um Martin hefst eftir 22 og hálfa mínútu.

Kjartan Atli telur að Martin muni með tímanum geta náð betri árangri og nefndi Borce Ilievski, þjálfara ÍR, sem dæmi:

„Við sáum hvernig Borce Ilievski kom hingað til lands, byrjaði hjá Vestra, fór á Krókinn og til Breiðabliks, og var lengi að finna taktinn. Borce hefur alltaf verið frábær þjálfari en körfuboltinn var ekki á þeim stað sem hann er núna. Borce er svo „all-in“ að leikmenn voru kannski ekki tilbúnir.

Þannig að ég held að Israel Martin eigi bara að hinkra aðeins og að hann muni fá starf hér. Það er skortur á körfuboltaþjálfurum hér sem að geta þjálfað í efstu deild. Ég held að þolinmæði sé dyggð, og að Isarel Martin eigi bara að hinkra því það muni eitthvað opnast á næstu mánuðum. Hann er góður þjálfari en stundum ganga hlutirnir ekki upp. Hann er líka herramaður sem beitir sér algjörlega fyrir klúbbinn,“ sagði Kjartan Atli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×