Lífið

Demi Lovato var nær dauða en lífi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Demi Lovato kom fram á Billboard-verðlaunahátíðinni í fyrra.
Demi Lovato kom fram á Billboard-verðlaunahátíðinni í fyrra. Getty/Kevin Mazur

Bandaríska tónlistar- og leikkonan Demi Lovato segist hafa verið nær dauða en lífi eftir að hún tók of stóran skammt af fíkniefnum árið 2018.

Hún hafi fengið þrjú heilablóðföll og hjartaáfall vegna skammtsins og segir lækna hafa sagt að hún hafi verið fimm til tíu mínútum frá því að deyja.

Lovato tjáir sig í fyrsta skipti um þessa lífsreynslu sína í nýjum heimildarþáttum sem heita Demi Lovato: Dancing with the Devil en stikla fyrir þættina var birt í gær.

Það var í júlí 2018 sem Lovato fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í Los Angeles. Hún var flutt í skyndi á sjúkrahús þar sem tókst að bjarga lífi hennar en hún hafði tekið of stóran skammt af ópíóðum.

Lovato, sem er fædd árið 1992, hafði þá verið edrú í sex ár. Hún opnaði sig um vímuefnaneyslu sína á unglingsárunum árið 2017 og mánuði áður en hún var flutt á spítala 2018 hafði hún gefið út lagið Sober.

„Ég fékk þrjú slög og ég fékk hjartaáfall. Læknarnir sögðu að ég hafi átt fimm til tíu mínútur eftir ólifaðar,“ segir Lovato í stiklunni fyrir heimildarþættina. Þá sagði hún í viðtali við AP að hún væri með heilaskaða eftir ofskömmtunina.

Sem barn lék Lovato í þáttunum Barney and Friends. Hún varð svo enn þekktari sem unglingur á Disney-sjónvarpsstöðinni þar sem hún lék meðal annars í Camp Rock-myndunum sem nutu gríðarlega vinsælda.

Lovato sneri síðan meira að tónlistinni og hefur gefið út sex plötur. Hún hefur einnig verið dómari í X-Factor-þáttunum í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.