Bílar

Tesla inn­kallar 135 þúsund bif­reiðar vegna galla

Eiður Þór Árnason skrifar
Innköllunin nær til Tesla Model S og Model X bifreiða.
Innköllunin nær til Tesla Model S og Model X bifreiða. Getty Images/Jim Dyson

Rafbílaframleiðandinn Tesla hyggst innkalla 135 þúsund Model S og Model X bifreiðar sem seldar voru í Bandaríkjunum vegna galla sem getur leitt til þess að snertiskjáir um borð í þeim hætta að virka.

Innköllunin nær til hluta þeirra Model S bíla sem framleiddir voru á árunum 2012 til 2018 og vissra Model X jepplinga árgerð 2016 til 2018. Bandaríska umferðaöryggisstofnunin kallaði eftir því um miðjan janúar að Tesla mynda hefja innköllunina með vísan til að bilaður skjár gæti aukið líkur á árekstrum. Stjórnendur Tesla mótmæltu upphaflega kröfunni og sögðu að vandamálið varðaði ekki öryggi bifreiðanna.

Innköllunin hefst þann 30. mars næstkomandi og felur í sér að Tesla þarf að láta eigendur umrædda bifreiða vita af gallanum og bjóðast til að skipta út örgjörva sem stýrir skjánum.

Eigendur þurftu að greiða fyrir að skipta skjánum út

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin fór fram á innköllunina á grundvelli þess að bilaður skjár gerði ökumönnum ókleift að nýta bakkmyndavél bílsins eða nota miðstöðina til að afísa rúður og fjarlægja móðu.

Fram kemur í frétt CNN að í samskiptum Tesla við umferðaröryggisstofnunina hafi fyrirtækið hafnað því að bilaður skjár myndi áhrif á öryggi bifreiðanna og tekið fram að ekki væri vitað um nein umferðaróhöpp sem rekja megi til vandamálsins.

Umferðaröryggisstofnunin kvaðst vera ósammála fullyrðingum Tesla og tilkynnti að mótmælin hefðu engin áhrif á skyldu framleiðandans til verða við beiðni um innköllun.

Fram að þessu hefur Tesla rukkað viðskiptavini sem hafa skipt út snertiskjáum um borð í umræddum bifreiðum en innköllunin kveður á um að framleiðandinn greiði kostnað vegna viðgerða. Tesla hyggst nú skipta út áðurnefndri örflögu í þeim bifreiðum sem innköllunin nær til, eigendum þeirra að kostnaðarlausu og bjóða þeim afslátt á nýrri snertiskjáum.


Tengdar fréttir






×