Körfubolti

Baldur Þór: Ég treysti Nick til að klára svona leiki

Smári Jökull Jónsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson gat fagnað í kvöld.
Baldur Þór Ragnarsson gat fagnað í kvöld. vísir/bára

„Ég er hrikalega ánægður með að við höfum tekið þennan sigur. Þór skaut 55% úr þriggja stiga í fyrri hálfleik og er að spila með mikið sjálfstraust og eru góðir. Þetta var mjög sterkur sigur,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Tindastóls eftir sigur hans manna í framlengdum leik gegn Þór frá Þorlákshöfn í kvöld.

Þórsarar höfðu yfirhöndina framan af leik og alveg fram í þriðja leikhluta. Þeir voru að hitta vel en frábær þriðji leikhluti Tindastóls kom þeim í bílstjórasætið.

„Í sjálfu sér var mikið af þeirra skotum sem þeir voru að setja í fyrri hálfleik í andlitið á mönnum. Það er oft talað um að það séu mikil smáatriði sem skeri úr um hvort þú náir að stoppa skot eða ekki. Það var meira um það í seinni hálfleik að skotin voru erfið fyrir þá.“

Tindastóll var með leikinn í hendi sér á lokamínútum en skoruðu ekki stig síðustu þrjár og hálfa mínútu venjulegs leiktíma.

„Í sjálfu sér erum við að fá skot. Jaka, Shawn og Nick voru að skiptast á að skjóta og í sjálfu sér voru þeir bara ekki að klára það. Þeir prófuðu allir og stundum er það bara þannig.“

Nick Tomsick var í vandræðum fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld og var almennt ekki að hitta vel. Hann steig þó upp í síðari hálfleik og skoraði körfuna sem tryggði Tindastól sigurinn.

„Hann er mjög sterkur karakter og hefur trú á sjálfum sér. Ég hef trú á honum og treysti honum til að klára svona leiki. Menn taka dýfur í þessu, þetta er langhlaup og það þarf að komast í gegnum dýfurnar og halda áfram.“

Antanas Udras hefur verið í stóru hlutverki hjá Stólunum í vetur en sat allan tímann á bekknum í kvöld. Baldur Þór sagði hann eiga við meiðsli að stríða.

„Hann er meiddur í hendi. Hann treysti sér ekki til að spila,“ sagði Baldur Þór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×