Rafíþróttir

Meistararnir mörðu KR-inga í framlengingu

Sindri Sverrisson skrifar
Það var mikil spenna í leik Dusty og KR White.
Það var mikil spenna í leik Dusty og KR White. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Lið Dusty hefur ráðið ríkjum í íslensku deildinni í Counter-Strike en liðið tapaði óvænt fyrsta leik nýs tímabils í Vodafone-deildinni og lenti í erfiðleikum gegn KR White í gær.

„Þetta er heldur betur spennandi. Fylkir er svo sem búinn að ná að vinna báða sína leiki og er á toppnum en svo fáum við sex lið með einn sigur hvert og bara Keflavík sem á eftir að vinna leik,“ segir Kristján Einar Kristjánsson, rafíþróttalýsandi, um byrjun tímabilsins.

Dusty vann KR að lokum 2-0 í gær eftir góð tilþrif Alfreðs Leós Svanssonar, allee, í framlengingu eins og sjá má hér neðst í fréttinni.

„Það var rosalegt „upset“ í fyrstu umferð þegar Dusty sem ríkjandi meistari, hópurinn sem vann líka fyrsta tímabilið undir öðrum merkjum, kóngarnir í þessu fagi í mörg ár, tapa á móti nýliðum sem var spáð næstneðsta sæti. Þannig að það voru endalaus spurningamerki fyrir leikinn í gær. Við vitum að Dusty settu æfingarnar í efsta gír og mættu inn í leikinn í gær með svakalega ákefð og vilja. KR-ingar áttu engin svör framan af. En svo fara þeir í seinna mappið og þar kemur þetta svakalega svar hjá KR-ingum og Dusty bara merja þá í framlengingunni,“ sagði Kristján Einar í Sportinu í dag.

Næstu leikir í Vodafone-deildinni eru á mánudag og næsta miðvikudag mætast TILT og FH í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport. Í kjölfarið verður farið yfir umferðina í sérstökum samantektarþætti.

Klippa: Sportið í dag - Dusty vann KR í hörkuleik

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×