Viðskipti innlent

Sænskt lindarvatn í Toppdósunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þrjár Toppdósir sem blaðamaður Vísis hafði svolgrað í sig eftir ferðalag þeirra frá Svíþjóð.
Þrjár Toppdósir sem blaðamaður Vísis hafði svolgrað í sig eftir ferðalag þeirra frá Svíþjóð. Vísir/AÍ

Þrátt fyrir að það sé ekki tiltekið á umbúðunum eða pakkningunni er Toppur í dós framleiddur og fluttur inn frá Svíþjóð. Á vefsíðu Coca-Cola European Partners á Íslandi, sem stendur að innflutningnum, segir þó að dósirnar eigi ættir að rekja til Jordbro í Svíþjóð - ólíkt Topp í flösku sem framleiddur er hér á landi.

Þegar sænski Toppurinn var kynntur til leiks var hann sagður svar við breyttum neysluvenjum. Íslendingar væru í auknum mæli farnir að minnka kaup á stærri umbúðum á borð við 2l plastflöskur og kjósi þess í stað smærri umbúðir.

Stefán Magnússon, markaðsstjóri CCEP á Íslandi, segir hins vegar í samtali við Fréttablaðið að fyrirtæki skorti tækjabúnaðinn til að framleiða litlar dósir í höfuðstöðvum þess að Stuðlahálsi. Því hafi verið farin sú leið að framleiða og flytja inn Topp í dós frá Svíþjóð, sem sé því bruggaður úr sænsku vatni. Stefán segir að um sænskt lindarvatn sé að ræða sem unnið sé með sjálfbærum hætti.

Íslendingar ættu þó að vera orðnir vanir því að drekka gosdrykki úr sænsku vatni. Flaggskip CCEP á Íslandi í glerflöskum og dósum, sjálft Coca-Cola, er þannig bæði lagað í fyrrnefndu Jordbro í Svíþjóð. Sömu sögu er að segja af sykurlausu útgáfum gosdrykkjarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×