Íslenski boltinn

Þrekþjálfari dómaranna fylgist með púlsmæli þeirra í gegnum netið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétgur Guðmundsson var kosinn besti dómari ársins í Pepsi Max deild karla. Hann dæmdi bikarúrslitaleikinn og er hér með aðstoðarmönnum sínum Birki Sigurðarsyni, (Pétur er annar frá vinstri), Ívari Orra Kristjánssyni og Gylfa Má Sigurðssyni.
Pétgur Guðmundsson var kosinn besti dómari ársins í Pepsi Max deild karla. Hann dæmdi bikarúrslitaleikinn og er hér með aðstoðarmönnum sínum Birki Sigurðarsyni, (Pétur er annar frá vinstri), Ívari Orra Kristjánssyni og Gylfa Má Sigurðssyni. Vísir/Vilhelm

Bestu dómarar Íslands láta ekki samkomubannið koma í veg fyrir það að þeir haldi sér í þjálfun, bæði líkamlega sem og í fræðunum. Þeir gera allir það sem þeir geta til að halda sér í sem bestu formi og vera tilbúnir í slaginn þegar hægt verður að hefja keppnistímabilið.

Fyrsti leikur Pepsi Max deildar karla átti að fara fram 22. apríl næstkomandi en það er ljóst að deildin byrjar ekki þá. Samkomubann er nú út aprílmánuð og liðin gætu því fyrst farið að æfa í maí. Fyrstu leikir verða því ekki fyrr en í seinni hluta maí og það gæti dregist enn frekar batni ekki ástandið í baráttunni við útbreiðslu COVID-19 sjúkdóminn.

Knattspyrnusamband Íslands segir frá því á heimasíðu sinni í dag að landsdómararnir verði tilbúnir þegar mótið hefst og að það sé fylgst vel með þeim fjarþjálfun.

„Landsdómarahópur KSÍ hefur t.a.m. æft vel í fjarþjálfun í samkomubanninu, hver í sínu lagi undir fjarstjórn Fannars Karvels þrekþjálfara og hópurinn er vel innstilltur inn á það að vera klár þegar boltinn fer að rúlla aftur. Allir dómararnir eru með púlsklukkur sem þrekþjálfari hefur aðgang að og getur séð hvernig hver og einn er að æfa,“ segir í fréttinni á heimasíðu KSÍ.

Hópurinn heldur líka góðu sambandi í gegnum netið og í síðustu viku tók hópurinn próf í knattspyrnulögunum og í þessari viku var fjarfundur á netinu þar sem farið var yfir valdar klippur úr leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×