Fótbolti

Ensk úrvalsdeildarfélög ekki tilbúin að ógilda tímabilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Brighton & Hove Albion og Wolverhampton Wanderers fyrr á leiktíðinni.
Úr leik Brighton & Hove Albion og Wolverhampton Wanderers fyrr á leiktíðinni. Matthew Lewis/Getty Images

Félög í ensku úrvalsdeildinni hafa ekki enn íhugað þann möguleika að ógilda tímabilið í heild sinni. Þetta segir Paul Barber, framkvæmdastjóri Brighton & Hove Albion.

Ekkert hefur verið leikið í ensku úrvalsdeildinni síðan 13. mars vegna kórónufaraldursins og enn á eftir að leika alls 92 leiki sem ákvarða hvaða lið vinnur deildina, hvaða lið falla og hvaða lið fara í Evrópukeppni.

Barber segir að félögin séu einhuga með að klára leiktíðina þegar það verður öruggt og hættulaust að leika knattspyrnu á ný.

„Við förum inn í tímabilið með það að markmiði að spila 38 leiki, nítján heima og nítján að heiman. Venjulega myndum við vilja sjá stuðningsmenn okkar smekkfylla vellina en miðða við núverandi aðstæður myndum við sætta okkur við það að geta spilað leikina,“ sagði Barber í viðtali við Sky Sports.

Barber tók þó fram að hvorki honum, né öðrum eigendum, dytti í hug að kvarta þar sem „það eru 700-800 manns að deyja daglega“ sökum kórónufaraldursins.

Að lokum sagði Barber að faraldurinn væri vakning fyrir öll félög deildarinnar sem og annars staðar.

„Þetta er áfall og fær mann til að hugsa vel og vandlega um hvernig reksturinn er settur upp.“

Sem stendur er talið að enska úrvalsdeildin geti haftist að nýju þann 8. júní.

Brighton er sem stendur aðeins tveimur sætum frá fallsæti þrátt fyrir að vera í 15. sæti deildarinnar. Liðið er með 29 stig á meðan West Ham United, Watford og Bournemouth eru með 27 stig hvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×