Rafíþróttir

Ísland í undankeppni EM í e-fótbolta í dag | Viðar og Arnór byrja frammi

Sindri Sverrisson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er stórkostlegur í föstum leikatriðum.
Gylfi Þór Sigurðsson er stórkostlegur í föstum leikatriðum. VÍSIR/GETTY

Það verður ekkert EM í fótbolta í sumar og karlalandsliðið í fótbolta spilar á ný í fyrsta lagi 4. júní, í EM-umspilinu við Rúmeníu. Hins vegar verður landsliðið í e-fótbolta á ferðinni í dag, í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport, nýjum heimavelli rafíþrótta.

Íslenska landsliðið í e-fótbolta leikur í undankeppni EM í Pro Evolution Soccer tölvuleiknum í dag. Fyrsti leikur er við Rússa kl. 16, liðið mætir Austurríki kl. 18, Póllandi kl. 19 og loks Ísrael kl. 20. Íslenska liðið skipa fyrirliðinn Aron Ívarsson úr KR, Aron Þormar Lárusson úr Fylki og Jóhann Ólafur Jóhannsson úr FH. Hver viðureign samanstendur af tveimur 10 mínútna leikjum á milli einstaklinga.

Hvert lið spilar sem landslið viðkomandi þjóðar, svo að fyrirliðinn Aron er búinn að velta því vel fyrir sér hvernig best sé að stilla upp byrjunarliði Íslands. Hann er ekki alveg sammála Erik Hamrén og þar spilar auðvitað inn í að tölvuleikir gefa ekki alltaf fullkomna mynd af raunveruleikanum. Þannig segir Aron hraða afar mikilvægan í PES og því sé Birkir Már Sævarsson til að mynda algjör lykilmaður. Þá er Aron með Viðar Örn Kjartansson og Arnór Sigurðsson sem fremstu menn. Þess ber að geta að Konami skalaði tölur leikmanna til svo að öll landslið væru álíka góð í leiknum, og þannig er heimsmeistaralið Frakklands til að mynda ekki sterkara á pappírunum en Ísland.

„Vona að Hannes verði ekki fúll“

„Ég reyni að stilla liðinu upp þannig að við notum hröðustu leikmennina okkar. Þess vegna eru Viðar Örn og Arnór Sigurðs fremstir. Auðvitað notar maður Gylfa vegna þess að hann er með ruglaðar tölur í föstum leikatriðum. Ef að maður fær aukaspyrnu á hættulegum stað þá er það bara mark. En við munum halda okkur við mjög varnarsinnaða taktík, þar sem við getum reynt að dæla fram háum boltum og fá skyndisóknir. En það er ákveðið vandamál að við erum ekki með Kolla og Jón Daða því þeir eru bara ekki í leiknum. Þetta er gamall hópur sem við erum að vinna með. Og ég vona að Hannes verði ekki fúll en Rúnar Alex verður að starta í markinu því hann er bara með betri tölur,“ segir Aron léttur.

Byrjunarlið Íslands í dag verður því líklega svona: Rúnar Alex – Birkir Már, Sverrir, Ragnar, Hörður Björgvin, Ari Freyr – Guðlaugur Victor, Jóhann Berg, Gylfi – Arnór, Viðar.

Aron tekur hins vegar fram að nafni hans, fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sem leitt hefur Ísland áfram á tvö stórmót, gæti komist inn í liðið þar sem hann sé með betri sendingar en Guðlaugur Victor en Aron sé hins vegar fullhægur í leiknum.

Íslenska landsliðið í e-fótbolta var stofnað í vetur en liðsmenn þess eru mun vanari því að spila FIFA tölvuleikinn en PES, að sögn Arons. Þeir munu fá að láta ljós sitt skína í FIFA í öðrum mótum og til stóð að liðið færi á HM í Kaupmannahöfn í maí, áður en að kórónuveiran setti allt úr skorðum.

Allir leikir Íslands í dag verða í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport, sem finna má á Stöð 2 Sport 4. Fyrsti leikur hefst kl. 16.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×