Rafíþróttir

Ný sjónvarpsstöð fyrir rafíþróttir

Sindri Sverrisson skrifar
Davíð Goði Þorvarðarson og Þorvarður Goði Valdimarsson frá Skjáskoti, Ólafur Hrafn Steinarsson formaður RÍSÍ, Þórhallur Gunnarsson framkvæmdastjóri Miðla hjá Stöð 2, og Valdís Guðlaugsdóttir markaðsstjóri Vodafone, skrifa undir viljayfirlýsingu um samstarf.
Davíð Goði Þorvarðarson og Þorvarður Goði Valdimarsson frá Skjáskoti, Ólafur Hrafn Steinarsson formaður RÍSÍ, Þórhallur Gunnarsson framkvæmdastjóri Miðla hjá Stöð 2, og Valdís Guðlaugsdóttir markaðsstjóri Vodafone, skrifa undir viljayfirlýsingu um samstarf.

Í þessum mánuði fer í loftið ný sjónvarpsstöð, Stöð 2 ESPORT, sem sýna mun frá keppni í rafíþróttum á Íslandi.

Stöð 2, Rafíþróttasamtök Íslands og Skjáskot hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf sín á milli um uppbyggingu á rafíþróttum á Íslandi. Samstarfið felur meðal annars í sér aðstoð við framleiðslu og dreifingu á útsendingum frá fyrsta tímabili Vodafone deildarinnar sem hefst í lok mars. Þar keppa lið á borð við Fylki, Dusty, KR og FH í leikjunum Counter Strike og League of Legends.

Formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, Ólafur Hrafn Steinarsson, er ánægður með samstarfið og talaði um að hér væri um vendipunkt í íslenskum rafíþróttum að ræða. „Það er náttúrulega frábært að fá aðila eins og Stöð 2 og Vodafone með okkur í þessa vegferð, að kynna rafíþróttir sem gilt áhugamál og byggja upp flott umhverfi í kringum iðkun og keppni þess á Íslandi.“

Framkvæmdastjóri fjölmiðla Stöðvar 2, Þórhallur Gunnarsson, segist hafa botnlausa trú á þessu verkefni enda séu rafíþróttir mest vaxandi íþróttagrein í sjónvarpi í dag. „Við setjum í gang nýja sjónvarpsrás ESPORT sem við erum sannfærð um að slái í gegn. Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan í þessu sporti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×