Íslenski boltinn

Bayern München vill kaupa Karólínu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á óskalista Bayern München.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á óskalista Bayern München. vísir/vilhelm

Bayern München á í viðræðum við Breiðablik um kaup á íslensku landsliðskonunni Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Í samtali við Fótbolta.net staðfesti Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, að Bayern hefði sett sig í samband við Blika vegna mögulegra kaupa á Karólínu.

„Þeir hafa mikinn áhuga á henni og við erum í viðræðum við þá,“ sagði Sigurður við Fótbolta.net.

Karólína hefur leikið með Breiðabliki undanfarin þrjú tímabil en hún kom til liðsins frá FH. Hún hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með Blikum og einu sinni bikarmeistari. Í sumar lék Karólína alla fimmtán leiki Breiðabliks í Pepsi Max-deildinni og skoraði fjögur mörk.

Karólína, sem er nítján ára, kom inn í byrjunarlið Íslands í undankeppni EM 2022 í haust. Hún hefur leikið fjóra A-landsleiki og skorað eitt mark.

Bayern situr á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með fullt hús stiga. Dagný Brynjarsdóttir lék með Bayern 2015 og varð þýskur meistari með liðinu.

Í gær var greint frá því að Þýskalandsmeistarar Wolfsburg hefðu fest kaup á Sveindísi Jane Jónsdóttur. Karólína gæti því farið til stórliðs í Þýskalandi líkt og jafnaldra sín og samherji í landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×