Sport

Fyrst kvenna til að taka þátt í há­­skóla­­boltanum í amerískum fót­­bolta | Við­tal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fuller vakti athygli á Spilaðu Eins og Stelpa (e. Play Like A Girl) samtökunum í leiknum. Þau hvetja stelpur til að vera í þróttum.
Fuller vakti athygli á Spilaðu Eins og Stelpa (e. Play Like A Girl) samtökunum í leiknum. Þau hvetja stelpur til að vera í þróttum. USA Today

Sarah Fuller skráði sig á spjöld sögunnar í gær er hún rölti inn á völlinn í leik Vanderbilt og Missouri Tigers í háskólaboltanum í amerískum fótbolta.

Fyrr í vikunni greindi Vísir frá því að Vanderbilt-háskólinn væri í stökustu vandræðum með að fylla leikmannahóp sinn fyrir komandi leik gegn Missouri Tigers vegna kórónuveirunnar. Fjöldi leikmanna var – og er – í sóttkví, þar á meðal þeir leikmenn sem fylla stöðu sparkara í liðinu.

Góð ráð voru dýr og var leitað til knattspyrnuliðs skólans, það er kvennaliðs skólans þar sem skólinn er ekki með knattspyrnulið karlamegin. Sarah Fuller, markvörður liðsins, er á sínu síðasta ári í skólanum og var fengin til að mæta á æfingar og vera til taks ef þess þyrfti í leiknum.

Fuller var á leiðinni heim til Texas til að vera með fjölskyldu sinni yfir þakkargjörðarhátíðina en hún var tilbúin að sleppa því að þessu sinni til að eiga möguleikann á að spila með skólaliði Vanderbilt í amerískum fótbolta.

Þó Sarah hafi ekki fengið tækifæri til að skora vallarmark í leik gærdagsins þá fór inn á völlinn í síðari hálfleik til að hefja leik að nýju. Með því varð Sarah Fuller fyrsta konan til að spila í einum af fimm stærstu deildum bandaríska háskólaboltans, ganga þær venjulega undir nafninu Power 5.

Gengi Vanderbilt hefur verið afleitt á leiktíðinni og liðið ekki enn unnið leik. Það sama var upp á teningnum í gær er Tigers unnu 41-0. Fuller gerði sitt besta til að reyna hvetja liðsfélaga sína áfram og hét meðal annars ræðu í hálfleik. Allt kom þó fyrir ekki.

Sports Illustrated greindi frá.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×