Lífið

„Um leið og ég lendi fæ ég símtal frá bræðrum mínum um að hann sé farinn“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigmar Vilhjálmsson er gestur vikunnar í Einkalífinu.
Sigmar Vilhjálmsson er gestur vikunnar í Einkalífinu. vísir/vilhelm

Sigmar sló fyrst í gegn í þáttunum 70 mínútur á Popp Tíví um aldamótin og hefur síðan þá verið þjóðþekktur einstaklingur hér á landi. Í dag á hann nokkra veitingastaði og hefur gert það gott á því sviði. Sigmar Vilhjálmsson er gestur vikunnar í Einkalífinu.

Sigmar missti pabba sinn fyrir tæplega ári síðan en þá féll Vilhjálmur Einarsson frá þann 28. desember. Vilhjálmur var fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 og var 5 sinnum kjörinn íþróttamaður ársins. Hann fékk silfur á leikunum.

„Aðdragandinn var í rauninni eitt ár því árið áður var hann fluttur með sjúkraflugi frá Egilsstöðum og var frekar illa haldinn þegar hann kemur til Reykjavíkur,“ segir Sigmar og heldur áfram.

„Honum var eiginlega vart hugað líf þá. Síðan nær hann sér upp úr því og við höfðum alveg ár með honum sem var frábært. Þetta ár var samt klárlega árið sem maður var að búa sig undir að þetta væri lokaspretturinn.“

Um síðustu jól heimsótti Simmi föður sinn á sjúkrahúsið.

„Það er í rauninni síðasta kvöldið þar sem hann talar, situr uppi og við náum að óska honum gleðilegra jóla og ná ágætis samtali við hann. Eftir það fer hann í dá. Ég var þarna að fara á öðrum í jólum með miðjusoninn minn á handboltamót í Svíþjóð og var svona eitthvað að efast um það hvort ég ætti að fara. Á ákvað að fara og það var síðan um leið og ég lendi fæ ég símtal frá bræðrum mínum um að hann sé farinn. Þá kom upp sú spurning hvort það ætti að reyna halda honum lifandi þangað til að ég kæmi til baka á gamlárs. Af því að ég fékk þennan tíma með honum á aðfangadag þá fannst mér það engan veginn við hæfi,“ segir Sigmar og bætir við að faðir hans hefði sjálfur aldrei viljað það, að vera haldið á lífi í vélum. 

Sigmar segir að það hafi verið erfitt að skipuleggja svona stóra jarðarför en álagið hafi dreifst vel á þá bræður, en þeir eru sex talsins.

„Ég hef ekki enn haft tíma til að lesa minningargreinarnar. Morgunblaðið tók þær allar saman fyrir mig og ég á þær í bundinni bók sem ég ætla einhvern tímann að gefa mér tíma til að lesa. Ég hef svona að einhverju leyti ýtt því frá mér að fara yfir þá bók.“

Í þættinum hér að ofan ræðir Simmi Vill um upphafið á fjölmiðlaferli sínum, veitingabransann og það hvernig er að reka veitingastaði í miðju Covid, um fráfall föður hans seint á síðasta ári, þristamúsina frægu, framtíðina og svo margt fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.